Handbolti

Seinni bylgjan ræðir ummæli Stefáns um Emma sé að flýja Ísland út af dómgæslu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emma Olsson sést hér eftir að hún fékk rauða spjaldið í bikarúrslitaleiknum.
Emma Olsson sést hér eftir að hún fékk rauða spjaldið í bikarúrslitaleiknum. Vísir/Hulda Margrét

Þjálfari kvennaliðs Fram segir einn besta leikmann sinn og deildarinnar verða að yfirgefa íslensku Olís-deildina út af framkomu dómara við sig í vetur. Seinni bylgjan ræddi þessi ummæli Stefáns Arnarsonar.

„Stefán Arnarson kom aðeins inn á fjarveru Emmu í viðtali fyrir leik,“ sagði Svava Kristín Grétarsdóttir, umsjónarkona Seinni bylgjunnar og hún sýndi svo viðtalið við Stefán.

„Emma er í leikbanni sem er mjög slæmt. Hún er búin að vera mjög sterk og er búin að koma sterkt inn í íslenskan handbolta. Verra er það að hún er með tveggja ára samning hjá Fram en hún er búin að segja okkur að hún ætli ekki að vera hérna áfram af því að henni finnst framkoma dómara í sinn garð vera þannig að hún ætli ekki að spila á Íslandi áfram,“ sagði Stefán Arnarson en er hún þá bara farin?

„Hún mun klára þetta tímabil,“ svaraði Stefán og útskýrði síðan aðeins betur.

„Það er styrkur fyrir íslensku deildina að fá svona góða leikmenn. Bæði fyrir Fram og fyrir kvennahandboltann. Þá er leiðinlegt að missa leikmenn út af svona,“ sagði Stefán.

Hvað fannst sérfræðingum Seinni bylgjunnar um þessi ummæli Stefáns.

„Þetta er bara væl,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

„Ég hef alveg skoðað fullt af þessum brotum hjá henni í vetur og þau hafa bara verið klaufaleg og gróf. Er ekki bara einhver önnur ástæða fyrir því að hún sé að fara,“ spurði Sigurlaug Rúnarsdóttir, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

„Hún er stundum bara of kappsöm,“ sagði Sólveig Lára og bætti við:

„Ég væri til í að Framara tækju þá saman klippur með dæmum svo við gætum skoðað það,“ sagði Sólveig.

„Það væri alveg áhugavert,“ spurði Sigurlaug.

Seinni bylgjan skoðaði einhver brot hjá Emmu í vetur en það má sjá þau og umfjöllunina hér fyrir neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Emma Olsson og dómarar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×