Fótbolti

Búið að finna borg fyrir stelpurnar okkar og Hvít-Rússa

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið þarf nauðsynlega á sigri að halda gegn Hvíta-Rússlandi í Belgrad í næsta mánuði, í von um að komast á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.
Íslenska landsliðið þarf nauðsynlega á sigri að halda gegn Hvíta-Rússlandi í Belgrad í næsta mánuði, í von um að komast á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. vísir/hulda margrét

Vegna innrásar Rússa í Úkraínu, með aðstoð Hvít-Rússa, hefur ríkt óvissa varðandi mikilvægan útileik Íslands gegn Hvíta-Rússlandi í undankeppni HM í fótbolta kvenna. Nú er leikstaður fundinn.

Samkvæmt heimasíðu UEFA hefur verið ákveðið að spila leikinn í Belgrad, höfuðborg Serbíu. Leikurinn fer fram 7. apríl.

Ísland mætir svo Tékklandi í Teplice 12. apríl en með sigri í báðum leikjum kæmist Ísland í dauðafæri á að komast á HM í fyrsta sinn.

Knattspyrnusamband Íslands gaf út skýra yfirlýsingu um það 28. febrúar að ekki kæmi til greina að spila landsleiki við Rússlands vegna innrásarinnar í Úkraínu. Þar var þess jafnframt getið að ekki kæmi heldur til greina að spila við Hvíta-Rússland á hvítrússneskri grundu.

Íslandsvinur stýrir liðinu sem á völlinn

UEFA gaf það svo út nokkrum dögum síðar að Hvíta-Rússland mætti ekki spila heimaleiki sína í sínu landi, á meðan á stríðinu stæði.

Leikur Íslands og Hvíta-Rússlands í Belgrad fer fram á Vozdovac vellinum, þar sem samnefnt lið spilar. Þess má geta að Vozdovac leikur undir stjórn Íslandsvinarins mikla Aleksandar Linta sem lék með fjölda liða hér á landi, þar á meðal í efstu deild með bæði Þór og ÍA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×