Fótbolti

„Við vorum óþekkjanlegir“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti tók á sig sökina eftir skellinn í El Clasico í gær.
Carlo Ancelotti tók á sig sökina eftir skellinn í El Clasico í gær. AP/Manu Fernandez

Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, tók sjálfur á sig sökina fyrir slakri frammistöðu Real Madrid í El Clasico í gærkvöldi þar sem Barcelona mætti á Santiago Bernabeu og vann 4-0 stórsigur.

Real Madrid er enn með níu stiga forskot á Sevilla á toppi spænsku deildarinnar og með tólf stigum meira en Börsungar.

„Það er erfitt að útskýra hvað gerðist. Þeir spiluðu betur en við,“ sagði Carlo Ancelotti við Movistar eftir leikinn.

„Við vildum stjórna leiknum meira, pressa þá hátt en ekkert virkaði. Þetta var mér að kenna,“ sagði Ancelotti.

„Við vorum óþekkjanlegir. Allt fór á versta veg. Við verðum samt að gleyma þessu og horfa fram á veginn. Við erum með gott forskot í töflunni,“ sagði Ancelotti.

„Ég sagði við strákana eftir leikinn að þetta hafi verið þjálfaranum að kenna,“ sagði Ancelotti.

Real Madrid lék án Karim Benzema sem er meiddur. Ancelotti ákvað að láta Króatann Luka Modric spila sem framherji.

„Planið með Modric var að reyna að spila boltanum úr vörninni og finna pláss á milli línanna með þeim Rodrygo, [Federico] Valverde og Vinicius. Það gekk ekki. Það er ekki vandamál fyrir mig að taka ábyrgðina. Stundum ganga hlutirnir upp hjá þeim en stundum ekki. Ég gerði mistök,“ sagði Ancelotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×