Fótbolti

Fyrsti leikur Söru í rúmt ár: „Mögnuð tilfinning að vera komin aftur á völlinn“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir mætti aftur á knattspyrnuvöllinn í kvöld.
Sara Björk Gunnarsdóttir mætti aftur á knattspyrnuvöllinn í kvöld. Vísir/Vilhelm

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, kom inn af varamannabekknum í 3-0 sigri Lyon gegn Dijon í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Þetta var fyrsti leikur Söru í rúmt ár.

Sara lék allan síðari hálfleikinn eftir að hafa komið inn af varamannabekknum fyrir Ödu Hegerberg. Þá hafði Lyon 2-0 forystu, en liðið vann að lokum öruggan 3-0 sigur.

Lyon trónir á toppi frönsku deildarinnar með 49 stig eftir 17 leiki, þremur stigum meira en Frakklandsmeistarar PSG. Dijon situr hins vegar í áttunda sæti með 13 stig.

Í viðtali eftir leik sagði Sara að það væri mögnuð tilfinning að vera mætt aftur á völlinn, en viðurkenndi þó að hún væri heldur þreytt eftir þessar 45 mínútur.

„Mér líður eins og það sé heil eilífð, þetta er klikkað,“ sagði Sara að leik loknum. „Ég man eftir fyrstu æfingunni og þá var ég ekki viss um hvernig þetta myndi ganga, en þetta kemur bara sjálfkrafa.“

„Ég fékk 45 mínútur í dag og ef ég á að vera hreinskilin þá er ég aðeins þreytt eftir að hafa ekki spilað í heilt ár. En mér leið vel og það er mögnuð tilfinning að vera komin aftur á völlinn,“ sagði Sara að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×