Innherji

Veitingastaðir fá hvert höggið á fætur öðru á kostnaðarhliðinni

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Gunnar Örn Jónsson, annar eigandi veitingastaðarins XO.
Gunnar Örn Jónsson, annar eigandi veitingastaðarins XO. VÍSIR/VILHELM

Mjög margir veitingastaðir eru í erfiðri stöðu um þessar mundir eftir að hafa glímt við hverja áskorunina á fætur annarri á síðustu tveimur árum. Miklar launahækkanir, í bland við hækkun aðfangaverðs, munu að öllu óbreyttu fara beint út í verðlagið eða leiða til frekari hagræðingaraðgerða. Þetta segir Gunnar Örn Jónsson, annar eigenda veitingastaðarins XO.

„Það eru því miður ekki mörg jákvæð teikn á lofti í veitingageiranum í upphafi þessa árs. Kostnaður hefur aukist verulega á fyrstu tveimur mánuðunum, segir Gunnar Örn, í samtali við Innherja.

Kostnaðarþrýstingurinn sem veitingamenn finna fyrir er þríþættur að sögn Gunnars. Í fyrsta lagi hafa öll aðföng hækkað í verði og eru hækkanirnar á bilinu 5-10 prósent. „Nú má vænta enn frekari hækkana vegna stríðsástandsins í Úkraínu þar sem flestar ef ekki allar hrávörur og aðföng hafa hækka mikið í verði og samhliða hefur flutningskostnaður aukist enn frekar “ segir Gunnar.

Í öðru lagi hækkuðu lægstu laun um 7,5 prósent í byrjun árs í samræmi við lífskjarasamninginn og allir aðrir launataxtar hækkuðu að jafnaði um 5-7 prósent. Ofan á þessar hækkanir bætist við önnur hækkun í maí, svokallaður hagvaxtarauki. Í lífskjarasamningnum var kveðið á um að laun myndu hækka enn frekaref hagvöxtur á mann á árinu 2021 væri yfir 2 prósentum.

„Í þriðja lagi þykir mér vert að benda á að kostnaður við veikindadaga hefur líklega þrefaldast á síðustu tveimur árum eða frá upphafi Covid faraldursins enda var það beinlínis krafa frá stjórnvöldum að fólk héldi sig heima ef það finndi fyrir minnstu kvefeinkennum,“ segir Gunnar.

„Eðlilega jókst fjarvera starfsmanna verulega vegna þessa ásamt því að starfsfólk smitaðist af Covid og var því fjarverandi í 5-7 daga. Í veitingarekstri verður ávallt einhver að hlaupa í skarðið þegar um veikindi er að ræða og því má segja að að mörg hundruð klukkustundir hafi verið greiddar með stórhátíðarálagi. Í ofanálag sættu starfsmenn okkar ítrekað sóttkví, líklega í vel yfir 100 daga á umræddum 2 árum.“

Kostnaður við veikindadaga hefur líklega þrefaldast á síðustu tveimur árum eða frá upphafi Covid faraldursins enda var það beinlínis krafa frá stjórnvöldum að fólk héldi sig heima ef það finndi fyrir minnstu kvefeinkennum

Þessar kostnaðarhækkanir koma sér illa fyrir veitingastaði sem urðu margir hverjir fyrir verulegu tekjutapi á meðan samkomutakmarkanir voru í gildi og ferðamenn voru hvergi sjáanlegir.

Launahlutfall íslenskra veitingastaða á móti tekjum var hátt fyrir en samkvæmt skýrslu sem KPMG vann fyrir Samtök fyrirtækja á markaði var það oftast um 40 prósent árið 2019. Gunnar segir að hlutfallið hjá XO hafi að meðaltali numið 37,6 prósentum á árunum 2018 til 2020. Sama hlutfall, að því er kom fram í skýrslu KPMG, var að jafnaði í kringum 25 prósent í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi.

Verðbólga mælist nú 6,2 prósent á ársgrundvelli en innrás Rússa í Úkraínu, dragist hún á langinn, gæti aukið verðbólguþrýsting enn frekar, eins og skýrt kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og Unnar Gunnarsdóttur, varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits, í ritinu Fjármálaeftirlit 2022 sem bankinn birti fyrir helgi.

„Enn fremur munu þessar [refsiaðgerðir gagnvart Rússlandi] auka á þann verðbólguþrýsting sem þegar var til staðar vegna farsóttarinnar vegna hærra orkuverðs og framboðshnökra,“ sagði í formála ritsins.

Ekki hægt að draga sterkar ályktanir af afkomu stórfyrirtækja

Forysta verkalýðshreyfingarinnar, til dæmis formaður VR, hefur bent á afkomu Kauphallarfélaga á borð við Festi til að sýna fram á að innistæða sé fyrir síðustu launahækkunum og hagvaxtaraukanum sem er framundan. Gunnar segir á móti að ekki sé hægt að draga sterkar ályktanir með vísan til afkomu stórfyrirtækja, slíkur samanburður sé að hluta til ekki sambærilegur.

„Það er ekki hægt að benda á afkomuna hjá stórfyrirtækjum og draga þá ályktun að lítil og meðalstór fyrirtæki, jafnvel lítil fjölskyldufyrirtæki með kannski 5-20 starfsmenn, ráði almennt við svo miklar launahækkanir ofan á verðbólguna. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru hryggjarstykki hagkerfisins og standa undir um 70 prósentum af heildarlaunagreiðslum í landinu og það verður að sjálfsögðu að hafa þeirra umhverfi í huga í komandi kjaraviðræðum,“ segir Gunnar.

Þegar öllu er á botninn hvolft, bætir hann við, er vinnumarkaðurinn og hagkerfið í heild sinni eilíft samstarfsverkefni atvinnurekenda, launþega og stjórnvalda. Þessir aðilar hafi sameiginlegra hagsmuna að gæta. „Fyrirtæki verða að skila hagnaði, annars fara þau í þrot og á því tapa allir, kröfuhafar, ríki, sveitarfélög, eigendur og ekki síst launþegar, eins og dæmin sanna undanfarna mánuði og ár.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×