Innherji

Hafa „hert róðurinn“ til að semja við ESB um lækkun tolla á sjávarafurðum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ísfisktogarinn Akurey AK við Reykjavíkurhöfn.
Ísfisktogarinn Akurey AK við Reykjavíkurhöfn. VÍSIR/VILHELM

Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum „hert róðurinn“ varðandi kröfu um bætt aðgengi fyrir íslenskar sjávarafurðir að mörkuðum innan Evrópusambandsins og haldið á lofti kröfu um fulla fríverslun fyrir sjávarafurðir. Þetta kemur fram í svari Utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Innherja.

Á uppgjörsfundi Síldarvinnslunnar í síðustu viku kallaði Gunnþór B. Ingvason, forstjóri útgerðarinnar, eftir því að stjórnvöld næðu samkomulagi við Evrópusambandið um tollaívilnanir svo að liðka mætti fyrir sölu á uppsjávarafurðum til ríkja innan sambandsins.

„Ef við eigum að horfa á stöðuna markaðslega fyrir uppsjávarfisk núna, út af þessari ólgu í Austur-Evrópu, þá væri gríðarlega mikilvægt ef við næðum einhvers konar samkomulagi varðandi tollamál og tollaívilnanir inn á Evrópusambandið,“ sagði Gunnþór.

„Það er mikil neysla á makríl og síld á þeim mörkuðum en við búum við tolla sem skerða okkar samkeppnishæfni þar,“ bætti hann við. Makríll og síld eru í hæsta tollflokki sjávarafurða og bera því meira en 10 prósenta toll.

Í svari ráðuneytisins kemur fram að utanríkisráðherra hafi reglulega tekið þessa kröfu upp við fulltrúa Evrópusambandsins og aðildarríkja þess undanfarin ár, nú síðasta á fundum sem utanríkisráðherra átti nýverið í Brussel.

„Fram til þessa hefur ESB ekki ljáð máls á þessu en tæknilegar viðræður hafa staðið yfir um nokkurt skeið, nú síðast um miðjan febrúar,“ segir ráðuneytið.

Fram undan eru viðræður við ESB um nýtt fjárhagstímabil fyrir Uppbyggingarsjóð EES og samhliða þeim viðræðum verður samtalinu haldið áfram um bætt viðskiptakjör fyrir íslenskar sjávarafurðir.

ESB þarf að flytja inn um 60 prósent þeirra sjávarafurða sem neytt er innan sambandsins og því vandséð að sérstök þörf sé á tollvernd fyrir slíkar afurðir

Tollakjör vegna útflutnings sjávarafurða frá Íslandi til ESB byggjast annars á fríverslunarsamningi frá 1973 og EES samningnum frá 1994. Þeim til viðbótar hefur markaðsaðgangur nokkrum sinnum verið bættur fyrir tilteknar afurðir með tollkvótum í tengslum við stækkun ESB og framlög EFTA-ríkjanna innan EES til Uppbyggingarsjóðs EES.

Tollfríðindi sem samningarnir kveða á um hafa almennt náð að tryggja tollfrjálsan innflutning fyrir stórt hlutfall þeirra sjávarafurða sem Ísland flytur á Evrópumarkað.

„Á undanförnum árum hafa hins vegar orðið ýmsar breytingar í íslensku atvinnulífi sem snúa að sjávarafurðum sem kalla á endurskoðun núverandi tollkjara, m.a. með auknu fiskeldi hér á landi, breyttum vinnsluháttum og neysluvenjum sjávarafurða og því að makríll veiðist nú í íslenskri lögsögu svo eitthvað sé nefnt,“ segir í svari ráðuenytisins. „Þessar breytingar hafa leitt til þess að sífellt minna hlutfall okkar útflutnings er tollfrjáls.“

Almennt er kveðið á um fullt tollfrelsi fyrir sjávarafurðir í fríverslunarsamningum Íslands, bæði fríverslunarsamningum EFTA og í samningnum við Kína.

Einnig dregur útganga Bretlands úr ESB úr þörf sambandsins fyrir að viðhalda tollvernd fyrir fiskeldisafurðir.

Lengi vel fólu fríverslunarsamningar ESB ekki í sér fulla fríverslun með sjávarafurðir og var EES samningurinn engin undantekning á því. Hins vegar, eins og ráðuneytið bendir á, hefur sú stefna breyst þar sem sambandið hefur samið um fulla fríverslun með sjávarafurðir í nýlegum fríverslunarsamningum sínum við Kanada, Japan, Víetnam og Mercosur-ríkin og boðið fulla fríverslun í yfirstandandi viðræðum við Ástralíu og Nýja-Sjáland.

„Einnig dregur útganga Bretlands úr ESB úr þörf sambandsins fyrir að viðhalda tollvernd fyrir fiskeldisafurðir. Loks má nefna að ESB þarf að flytja inn um 60 prósent þeirra sjávarafurða sem neytt er innan sambandsins og því vandséð að sérstök þörf sé á tollvernd fyrir slíkar afurðir,“ segir ráðuneytið.

Óvissa um töluverða útflutningshagsmuni

Útflutningshagsmunir Íslands í Úkraínu hafa aukist verulega á síðustu árum. Eftir að Rússland lagði innflutningsbann á matvæli frá Íslandi árið 2014 færðist útflutningur íslenskra sjávarafurða að miklu leyti til Hvíta-Rússlands og Úkraínu. Vöruútflutningur til Hvíta-Rússlands – nær einungis sjávarafurðir – fjórfaldaðist þannig úr 1 milljarði árið 2015 upp í rúmlega 4 milljarða á síðasta ári.

Hvað Úkraínu varðar jukust útflutningsverðmæti úr 2,3 milljörðum upp í 6,6 milljarða á sama tímabili. Og ef tekið er með í reikninginn að hátt í helmingur sjávarafurða sem eru seldar til Litáen sé síðan áframseldur til Úkraínu má áætla að útflutningur þangað hafi í raun verið nokkrum milljörðum meiri. Mikil óvissa er um þessa útflutningshagsmuni eftir innrás Rússa í Úkraínu.

„Til lengri tíma litið trúi ég því að allur sá fjöldi sem býr í þessum löndum muni halda áfram að borða uppsjávarfisk þegar þessum hörmungum linnir. Þessir markaðir eru ekki að hverfa en við munum finna aðra markaði,“ sagði Gunnþór á uppgjörsfundi Síldarvinnslunnar. 

„Makríll er vara sem við getum selt, að við teljum, um allan heim og sama má segja um síldina.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×