Fótbolti

Orri Steinn með þrennu og nálgast tuttugu mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson hefur raðað inn mörkum í dönsku unglingadeildinni.
Orri Steinn Óskarsson hefur raðað inn mörkum í dönsku unglingadeildinni. fck.dk

Íslenski unglingalandsliðsmaðurinn Orri Steinn Óskarsson heldur áfram að raða inn mörkum fyrir nítján ára lið FC Kaupmannahafnar í dönsku unglingadeildinni.

Orri Steinn skoraði þrennu í 5-1 sigri FCK á Randers um helgina. Hann skoraði tvö af þremur mörkum sínum af vítapunktinum.

Þetta var önnur þrenna Orra á tímabilinu en hans fyrsta á nýju ári. Orri er nú búinn að skora átján mörk í aðeins fimmtán leikjum í 19 ára deild danska fótboltans.

Orri skoraði ekki í fyrstu tveimur leikjunum eftir að keppni hófst á ný eftir vetrarfríið en hefur nú skorað fjórum sinnum í síðustu tveimur leikjum.

Orri var ekki eini Íslendingurinn á vellinum því A-landsliðsmaðurinn Andri Fannar Baldursson spilaði í 75 mínútur í leiknum.

Orri Steinn er að banka á dyrnar hjá aðalliði FCK og fékk að spila með liðinu á undirbúningstímabilinu.

Það er óhætt að segja að hann sé búinn að sanna sig í nítján ára deildinni en á síðustu tveimur árum hefur hann skorað 28 mörk í 27 leikjum í henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×