Fótbolti

Börsungar kafsigldu Osasuna á fyrsta hálftímanum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Byrjunarlið Börsunga í kvöld.
Byrjunarlið Börsunga í kvöld. vísir/Getty

Barcelona vann fjórða leikinn í röð í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld þegar Osasuna kom í heimsókn á Nývang. 

Segja má að Börsungar hafi gengið frá leiknum á fyrsta hálftímanum en Ferran Torres opnaði markareikninginn strax á fjórtándu mínútu þegar hann skoraði af vítapunktinum.

Torres var aftur á ferðinni skömmu síðar, eða á 21.mínútu, þegar hann skoraði eftir stoðsendingu frá Ousmane Dembele.

Dembele var ekki hættur að leggja upp því hann fann Pierre Emerick Aubameyang á 27.mínútu og skoraði Gabonmaðurinn þriðja mark Barcelona. Staðan í leikhléi 3-0 og úrslitin nánast ráðin.

Varamaðurinn Riqui Puig rak svo síðasta naglann í kistu Osasuna manna með marki á 75.mínútu og 4-0 sigur Barcelona staðreynd.

Með sigrinum er Barcelona komið í 3.sæti deildarinnar, tólf stigum á eftir toppliði Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×