Fótbolti

Elías biðst afsökunar: „Heimskuleg mistök hjá mér“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Erfitt kvöld í Herning.
Erfitt kvöld í Herning. vísir/Getty

Landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson gerði slæm mistök á ögurstundu í stórleik helgarinnar í danska fótboltanum.

Elías, sem leikur fyrir Midtjylland, átti slæma sendingu frá marki sínu á síðustu mínútu uppbótartíma leiksins og hafnaði sendingin hjá liðsfélaga Elíasar úr íslenska landsliðinu, Ísaki Bergmann Jóhannessyni, sem leikur fyrir FCK. 

Ísak gerði vel í að búa til færi fyrir Khouma Babacar sem skoraði eina mark leiksins og tryggði FCK toppsætið um sinn.

Elías tók tapið á sig í viðtali við danska fjölmiðla eftir leikinn.

„Þetta voru stór mistök hjá mér en við þurfum bara að horfa fram veginn. Ég biðst afsökunar, það er ekki hægt að gera mikið meira.“

„Ég tók ranga ákvörðun. Ég átti bara að sparka boltanum langt en ég get ekki breytt því núna,“ sagði Elías.

„Það er mjög pirrandi að tapa á þennan hátt, þegar ég geri stór mistök og liðið tapar vegna þeirra. Mér fannst við spila góðan leik en við töpum útaf heimskulegum mistökum hjá mér,“ sagði Elías hreinskilinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×