Innherji

Pólitísk markmið eigi ekki að vera hluti af launatékka forstjóra

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Vænta má að fleiri skráð fyrirtæki í Kauphöllinni taki upp sjálfbærnitengda kaupauka á næstu misserum og árum.
Vænta má að fleiri skráð fyrirtæki í Kauphöllinni taki upp sjálfbærnitengda kaupauka á næstu misserum og árum. SolStock/Getty

Sjálfbærnitengdir kaupaukar ganga gegn grundvallarsjónarmiðum um hlutverk fyrirtækja, segir Ársæll Valfells, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Pólítísk markmið eiga ekki að vera hluti af launatékka forstjóra að hans sögn heldur alfarið í höndum stjórnmálamanna.

„Að blanda pólitískum markmiðum saman við fjárhagsleg markmið um rekstur fyrirtækja í gegnum kaupauka skapar hættu á að hvorug markmiðin náist,“ segir Ársæll.

Í umfjöllun Innherja í gær kom fram að það væri aðeins tímaspursmál hvenær sjálfbærnitengdir kaupaukar, sem hafa á undanförnum árum rutt sér til rúms á erlendum hlutabréfamörkuðum, yrðu innleiddir fleiri í íslenskum Kauphallarfélögum. Marel er eina skráð íslenska félagið sem hefur hingað til innleitt slíka kaupauka.

Könnun endurskoðunarrisans PwC á starfskjarastefnum fyrirtækja í FTSE100 vísitölunni, sem inniheldur hundrað stærstu fyrirtækin sem skráð eru í kauphöllinni í London, leiddi í ljós að 58 prósent höfðu tengt starfskjör forstjóra við umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti, svokallaða UFS-þætti, á síðasta ári. Aukningin milli ára var töluverð en árið 2020 var hlutfallið 45 prósent.

Tómas N. Möller, formaður Festu — miðstöðvar um samfélagsábyrgð, sagði að það kæmi honum ekki á óvart ef sjálfbærnitengdir kaupaukar yrðu meira í umræðunni hér á landi á næstu misserum. „Með smá einföldun má segja að við Íslendingar séum nokkrum árum á eftir sjálfbærniþróuninni í Evrópu.“

Ársæll Valfells, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

En sjálfbærnitengdir kaupaukar horfa öðruvísi við Ársæli sem segir að tilgangur fyrirtækja sé að hámarka virði í starfsemi sinni við lausn viðskiptalegra viðfangsefna. Ákvarðanir stjórna fyrirtækja þurfi að vera byggðar á því hvort þær séu fjárhagslega hagkvæmar eða ekki, innan þeirra laga, reglna og viðskiptavenja sem gilda.

„Umboð stjórnarinnar stendur einvörðungu til þess að gæta hagsmuna fyrirtækisins og þar af leiðandi allra hluthafa. Þeir hagsmunir eru fjárhagslegir,“ segir Ársæll.

Málin vandast að hans sögn þegar UFS-þáttum er fléttað saman við megintilganginn. Þegar stjórnir hafa blönduð markmið við ákvarðanatöku, bæði fjárhagsleg og pólitísk, skapast umboðsvandi.

„Stjórnin þarf af þeim sökum að gæta annarra hagsmuna en bara fyrirtækisins og hluthafanna. Þegar ákvörðun er tekin til að ná pólitísku markmiði á kostnað hagkvæmni - og þar með á kostnað fyrirtækisins og hluthafanna - jafngildir það útgreiðslu fjármuna fyrirtækisins til þriðja aðila,“ segir Ársæll og bætir við að í reglum um hlutafélög séu slíkar útgreiðslur óheimilar nema að uppfylltum sérstökum skilyrðum.

UFS kaupaukar byggja aftur á móti á árangursviðmiðum sem er allt að því ómögulegt að skilgreina og mæla út frá hefðbundnum mælikvörðum í rekstri fyrirtækja.

Auk þess bendir hann á að í hlutafélagalögum sé gengið út frá því að kaupaukar falli undir starfskjarastefnu sem hluthafafundur samþykki. Lögin setji þessum kaupaukum takmörk og þurfi þeir að byggja á kveðnum og mælanlegum árangursviðmiðum þar sem langtímahagsmunir félagsins eru í fyrirrúmi.

„UFS kaupaukar byggja aftur á móti á árangursviðmiðum sem er allt að því ómögulegt að skilgreina og mæla út frá hefðbundnum mælikvörðum í rekstri fyrirtækja. Er alls óljóst hvort að kaupaukar sem ekki byggja á skýrum, fyrirfram ákveðnum og mælanlegum langtímahagsmunum fyrirtækisins heldur UFS-hagsmunum, uppfylli grundvallaratriði um starfskjarastefnu eins og hún er skilgreind í íslenskum lögum.“

Það fer betur að framkvæmd markmiða um bættan heim séu í höndum stjórnmálamanna en ekki hluti af launatékka forstjóra fyrirtækja

Í ljósi þess að UFS-stefnur ganga, að mati Ársæls, gegn grundvallarsjónarmiðum um hlutverk fyrirtækja er gagnrýni á sjálfbærnitengda kaupauka skiljanleg.

„Hlutverk fyrirtækisins er að skapa verðmæti. Hið opinbera ráðstafar skatttekjum til samneyslu og góðra málefna eftir því sem um er samið á vettvangi stjórnmála. Það fer betur að framkvæmd markmiða um bættan heim séu í höndum stjórnmálamanna en ekki hluti af launatékka forstjóra fyrirtækja.“


Tengdar fréttir

Skyldur stjórnenda hlutafélaga og krafan um sjálfbærni

Hluthafar hafa mikla hagsmuni af því að félögin stuðli að sjálfbærni í rekstri, enda getur það aukið lífvænleika félaganna og framtíðartekjumöguleika þeirra. Ekki fæst séð að það sé nauðsynlegt að beintengja trúnaðarskyldu stjórnenda við sjálfbærnisjónarmið enda sé það nú þegar hluti af hagsmunum félagsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×