Umræðan

Þjóð í öfgum

Ísak Rúnarsson skrifar

Það gerðist eitthvað í íslensku þjóðarsálinni þegar Kárahnjúkavirkjun var keyrð í gegn. Mörgum blöskraði offorsið og þótti nóg um, enda farið gegn umhverfismati og erfitt var að réttlæta virkjunina út frá viðskiptalegum sjónarmiðum. Virkjunin markaði þannig ákveðin tímamót í umræðu um orku- og umhverfismál hér á landi. Kannski má segja að áður hafi örlítill grenjandi minnihluti verið á móti virkjanaframkvæmdum, en eftir tilkomu Kárahnjúkavirkjunar hafi örlítill grenjandi minnihluti verið á móti víðtækum friðunum, ef orðalag Steingríms J. Sigfússonar er fengið að láni.

Á mínum fullorðinsárum hefur tilfinningin í hið minnsta verið sú að Landvernd fari meira og minna með stjórn umhverfis- og orkumála. Fyrst óbeint í gegnum áhrifavald og kæruferli en síðan með beinni hætti eftir að fyrrum framkvæmdastjóri félagsins sast í stól umhverfis- og auðlindaráðherra. Það sést enda best á því að engar nýjar virkjanir yfir 10 MW hafa fengið virkjunarleyfi síðastliðin fimm ár og engin ný vatnsaflsvirkjun yfir 15 MW hefur fengið virkjanaleyfi síðan 2009.

Þegar breytingar eiga sér stað á afstöðu almennings á Íslandi eiga þær til að gerast mjög hratt. Við eigum það líka til að sveiflast eins og pendúll – úr ökkla í eyra. Við ofleiðréttum stundum í ljósi fyrri mistaka, eins og þegar barn meiðir sig á leikvelli og foreldrar þess banna því að fara aftur á leikvöllinn í stað þess að kenna því að fara varlegar.

Að þessu sinni erum við á hinum endanum og höfum hálfpartinn neitað að horfast í augu við að áskoranir bæði samtímans og framtíðarinnar krefjast þess að við finnum leiðir til að auka orkuframboð hérlendis.

Færa má rök fyrir því að slík ofleiðrétting hafi einmitt átt sér stað í tengslum við orku- og umhverfismál eftir byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Að þessu sinni erum við á hinum endanum og höfum hálfpartinn neitað að horfast í augu við að áskoranir bæði samtímans og framtíðarinnar krefjast þess að við finnum leiðir til að auka orkuframboð hérlendis.

Í fyrsta lagi hefur verið skortur á uppbyggingu í flutningskerfinu, sem yfir tíma dregur úr öryggi í orkukerfinu hérlendis. Í öðru lagi hefur ekki tekist að tryggja nægjanlega orku allstaðar á landinu þrátt fyrir að fyrir hendi séu virkjanamöguleikar í nýtingarflokki og kemur Hvalárvirkjun þar helst til hugar. Það dregur úr möguleikum ákveðinna byggða til atvinnuuppbyggingar og grænvæðingu orkunnar. Í þriðja lagi höfum við ekki lagt upp raunhæfa áætlun um það hvernig við mætum skuldbindingum Íslands gagnvart umheiminum um að draga úr losun koltvíoxíðs, þrátt fyrir að ekki hafi skort á yfirlýsingar þess efnis. Að þessu leyti höfum við ef til vill hagað okkur eins og strútar – stungið höfðinu í sandinn.

Sem betur fer er nú komið fram raunsætt mat á nauðsynlegri uppbyggingu í orkukerfinu til þess að standa við yfirlýsingar um full orkuskipti á árunum 2040-2050. Í matinu sem unnið var fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra kemur fram að auka þurfi orkuvinnslu um því sem nemur 100 MW í uppsettu afli á ári til þess að ná yfirlýstum markmiðum. Það er stórt verkefni og tíminn knappur í samhengi hefðbundins framkvæmda- og skipulagstíma virkjana. Vera má að innan nokkurra ára blótum við okkur sjálfum í sand og ösku fyrir að hafa ekki lagt fyrr af stað.

Ísland hefur fyrst og fremst lagt landfræðilega stöðu sína af mörkum til bandalagsins en ástæða er til að velta því upp hvort að framlag Íslands til NATÓ geti einnig tengst orkuöryggi.

Og þó að framangreind skýrsla sé góð lætur hún að mestu ósnerta þá þætti sem tengjast þjóðaröryggi. Í þeirri nýju heimsmynd sem er að birtast okkur eftir grimmdarlega innrás Pútíns í Úkraínu er landslag orkumála mikið breytt og kyrfilega samofið þjóðaröryggi. Orkuverð í Evrópu mun að öllum líkindum verða hátt í hið minnsta næsta áratug og aukinn hraði verður í innleiðingu nýrra orkugjafa, svo sem vetnis og ammoníaks. Mikil tækifæri eru því í vinnslu og sölu orku í slíku formi til Evrópu og jafnvel mætti færa fyrir því rök að á okkur Íslendingum hvíli siðferðisleg skylda sem aðildarland NATÓ að leggja okkar að mörkum til að efla öryggi í álfunni með þeim hætti. Ísland hefur fyrst og fremst lagt landfræðilega stöðu sína af mörkum til bandalagsins en ástæða er til að velta því upp hvort að framlag Íslands til NATÓ geti einnig tengst orkuöryggi.

Í alla staði liggur fyrir að töluverð uppbygging á orkukerfi landsmanna er nauðsynleg á næstu áratugum. Vonandi náum við Íslendingar að lyfta höfðinu úr sandinum og verða loks tilbúin til að ná jafnvægi í umræðu og ákvarðanatöku þegar kemur samspili umhverfis- og orkumála. Það er alveg ljóst að engin er rós án þyrna eins og loftslagsráðherra hefur bent á, en að sama skapi er fátt svo með öllu illt að ei boði gott. Ekki einu sinni Kárahnjúkavirkjun, sem gaf okkur eina fegurstu náttúruperlu landsins, Stuðlagilið, hvar bæði Íslendingar og ferðamenn keppast nú um að birta af sér Instagram myndirnar.

Höfundur er MPA nemi við Harvard og MBA nemi við Dartmouth.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×