Innherji

Skortstöðum fækkaði í takt við hækkanir í Kauphöllinni

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Fari skortstaða yfir 0,5 prósent af útgefnu hlutafé þarf að tilkynna um það opinberlega. 
Fari skortstaða yfir 0,5 prósent af útgefnu hlutafé þarf að tilkynna um það opinberlega.  VÍSIR/VILHELM

Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands bárust 44 tilkynningar um skortstöður í fyrra en til samanburðar bárust 163 slíkar tilkynningar árið 2020. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálaeftirlit 2022 sem Seðlabankinn birti í morgun.

„Þróun á fjölda skortstöðutilkynninga hefur haldist í hendur við þann hækkunarfasa sem hlutabréfamarkaðurinn hefur verið í undanfarin misseri,“ segir í ritinu þar sem fjallað er um helstu verkefni stofnunarinnar á síðasta ári.

Samkvæmt Evrópureglugerð sem tók gildi hér á landi sumarið 2017 þarf að tilkynna fjármálaeftirlitinu um skortstöðu í hlutabréfum þegar hún fer yfir eða fellur undir viðmiðunarmörk sem nema 0,2 prósentum af útgefnu hlutafé félags.

Ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að lækka tilkynningaþröskuld úr 0,2 prósent í 0,1 prósent af útgefnu hlutafé hafði töluverð áhrif til fjölgunar tilkynninga á árinu 2020. Af þeim 163 tilkynningum um skortstöður sem bárust það ár voru 53 á bilinu 0,1-0,2 prósent.

Á árinu 2021 voru eingöngu tvær tilkynningar á þessu bili en ákvörðunin um lækkun á tilkynningaþröskuldinum rann út 19. mars 2021.

Fari skortstaða yfir 0,5 prósent af hlutafé félags verður að upplýsa um það opinberlega. Sjóðir í rekstri Kviku eignastýringar hafa verið að skortselja VÍS, eins og Innherji greindi frá í gær, en í byrjun þessarar viku voru þeir með hreina skortstöðu sem nam 0,53 prósentum af útgefnu hlutafé tryggingafélagsins.

Miðað við það nemur skortstaða félagsins, sem er sjóðastýringarfyrirtæki í eigu Kviku banka, tæplega 200 milljónum króna en markaðsvirði VÍS stendur nú í 35 milljörðum króna og hefur lækkað um nærri níu prósent frá áramótum.

Afar sjaldgæft er að fjárfestar skortselji tiltekin fyrirtæki í Kauphöllinni með svo umfangsmiklum hætti en á undanförnum fimm árum hefur það aðeins gerst tvisvar áður.

Fagfjárfestasjóðurinn Algildi skortseldi þannig Reiti síðla ársins 2020 – mest nam skortstaðan 0,81 prósenti af hlutafé fasteignafélagsins – og hið sama gerðu sjóðir í rekstri GAMMA Capital gagnvart eldsneytisfélaginu N1 á árinu 2017.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×