Viðskipti innlent

67,6 milljarða lakari við­­skipta­­jöfnuður

Eiður Þór Árnason skrifar
Að sögn Seðlabankans er helsta ástæðan fyrir lakari niðurstöðu viðskiptajafnaðar á fjórða ársfjórðungi lakari niðurstaða frumþáttatekna.
Að sögn Seðlabankans er helsta ástæðan fyrir lakari niðurstöðu viðskiptajafnaðar á fjórða ársfjórðungi lakari niðurstaða frumþáttatekna. Vísir/Vilhelm

44,2 milljarða króna halli var á viðskiptajöfnuði við útlönd á fjórða ársfjórðungi 2021. Niðurstaðan er 61,2 milljarða lakari en ársfjórðunginn á undan og 67,6 milljarða lakari en á sama tímabili árið 2020.

Þetta kemur fram í bráðabirgðayfirliti Seðlabanka Íslands yfir greiðslujöfnuð við útlönd á fjórða ársfjórðungi 2021 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Í lok ársfjórðungsins var hrein staða við útlönd jákvæð um 1.299 milljarða króna eða 40,2% af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 45 milljarða króna eða 1,4% af VLF á fjórðungnum. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 5.099 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.801 milljörðum. Halli á viðskiptajöfnuði fyrir árið 2021 í heild nam 90,2 milljörðum króna samanborið við 24,1 milljarða afgang árið á undan. Halli á vöruskiptajöfnuði var 163,7 milljarðar króna en afgangur á þjónustujöfnuði var 94,8 milljarðar.

Helsta skýringin lakari frumþáttatekjur

Á fjórða ársfjórðungi 2021 var halli á vöruskiptajöfnuði 38,7 milljarðar króna en 20,1 milljarða króna afgangur var af þjónustujöfnuði. Það er 5,9 milljarða lakari niðurstaða en á sama tímabili 2020.

Halli á frumþáttatekjum nam 15,5 milljörðum króna og 10,1 milljörðum á rekstrarframlögum. Halli rekstrarframlaga var 1,6 milljarða króna meiri en á sama fjórðungi árið 2020.

Að sögn Seðlabankans er helsta ástæðan fyrir lakari niðurstöðu viðskiptajafnaðar á fjórða ársfjórðungi miðað við sama fjórðung 2020 lakari niðurstaða frumþáttatekna um sem nemur 27,6 milljarða króna.

Halli á jöfnuði frumþáttatekna mælist nú eftir viðvarandi afgang frá öðrum ársfjórðungi 2015. Að mestu leyti skýrist það af bættri afkomu fyrirtækja í erlendri eigu sem flokkast undir beina fjárfestingu. Einnig voru vöruviðskipti lakari um sem nemur 23,2 milljörðum króna að mestu vegna kröftugri vöruinnflutnings.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×