Fótbolti

Fyrsta verk Vöndu eftir endurkjör að fara út á land

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Rætt var við Vöndu í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Rætt var við Vöndu í kvöldfréttum Stöðvar 2. Skjáskot/Stöð 2

Vanda Sigurgeirsdóttir var kjörin formaður KSÍ á ársþingi sambandsins sem fram fór í Hafnarfirði í gær.

Í samtali við fréttastofu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði Vanda að það hefði komið sér á óvart hve miklu munaði á henni og Sævari Péturssyni sem bauð sig fram gegn Vöndu.

Hlaut Vanda 105 atkvæði gegn 44 atkvæðum Sævars.

„Ég var jákvæð og bjartsýn og fann mikinn velvilja. Þetta var meiri munur en ég bjóst við og mér finnst þetta umboð sem ég fékk vera gríðarlega sterkt og ég er mjög þakklát,“ sagði Vanda sem var einnig þakklát fyrir drengilega kosningabaráttu þegar hún var spurð að því hvort henni hefði þótt umræðan ósvífin í aðdraganda þingsins.

„Ekki frá mínum bæjardyrum séð. Við (Sævar) ákváðum saman að hafa þetta drengilega kosningabaráttu og ég er honum þakklát fyrir það,“ segir Vanda sem ætlar að skella sér út á land í kjölfar sigursins.

„Það er hellingur framundan í fótboltanum. Það er EM í sumar og nú fara deildirnar okkar einnig að byrja. Það er margt mjög spennandi. Í kosningabaráttunni hef ég rætt að ég vilji færa mig nær félögunum. Ég er á leiðinni út á land og ætla austur með skrifstofuna mína. Ég ætla að byrja á því að gera það sem ég sagði við félögin að ég myndi gera,“ segir Vanda.

Innslagið í heild má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Vanda Sigurgeirsdóttir áfram formaður KSÍ

Tengdar fréttir

Ný stjórn og nefndir innan KSÍ tilbúin til starfa

Eftirfarandi aðilar voru ýmist kjörin eða sjálfkjörin í hin ýmsu störf og nefndir innan KSÍ. Sambandið mun áfram verða leitt áfram af Vöndu Sigurgeirsdóttur næstu tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×