Innherji

Íslensk fyrirtæki sett í vonlausa stöðu þegar landlæknir fylgir ekki lögum

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi Kara Connect, segir óttækt að landlæknir fari ekki að lögum.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi Kara Connect, segir óttækt að landlæknir fari ekki að lögum.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi Kara Connect sem kærði landlækni fyrir að brjóta gegn lögum um opinber innkaup og hafði betur segir yfirvöld þurfa að svara því hvernig framtíðarfyrirkomulag í heilsutækni eigi að líta út. Ráðamenn hafi tjáð sig með skýrum hætti en lítið hafi verið að gert. Landlæknir segir að farið verði ítarlega yfir úrskurðinn áður en embættið tjáir sig frekar um málið.

„Með úrskurðinum er staðfest að landlæknir fer ekki að lögum í útboðsmálum. Þessi úrskurður er sigur fyrir okkur hjá Köru Connect, enda höfum við barist fyrir þessu lengi. Þetta er líka mikill sigur fyrir sprotaumhverfið á Íslandi, fyrir öll smærri félög sem þurfa sífellt að berjast við úrsérgengið skrifræði kerfisins – hvort sem það er í heilsutækni eða öðrum geirum,” segir Þorbjörg Helga.

Líkt og Innherji greindi frá í gær komst kærunefnd útboðsmála að þeirri niðurstöðu að innkaup landlæknis af Origo hf. er lúta að þróun á Heklu heilbrigðisneti, gerð og þróun Heilsuveru og þróun fjarfundarlausnar til notkunar á heilbrigðissviði, hafi verið ólögmæt og í andstöðu við lög um opinber innkaup. 

Landlæknisembættinu er í úrskurðinum gert að bjóða út slík innkaup sem og að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 9 milljónir króna. Þá er kærunefndinni gert að greiða kæranda, Köru Connect ehf., málskostnað upp á 2 milljónir króna.

Í úrskurðinum kemur fram að um er að ræða innkaup á yfir milljarð króna yfir fjögurra ára tímabil, án útboðs.

Þorbjörg Helga segir fyrirtæki sitt Kara Connect, sem er almennur hugbúnaður fyrir sérfræðinga, meðal annars í heilbrigðisgeiranum og önnur sambærileg íslensk fyrirtæki vera sett í vonlausa stöðu.

 „Þegar landlæknir fylgir ekki landslögum, hvað varðar útboð verkefna í heilbrigðismálum. Landlæknir setur reglur og umgjörð fyrir okkur sem störfum á þessu sviði og það er því lágmarkskrafa að embættið fari sjálft að landslögum.”

Að mati Þorbjargar Helgu er stjórnvaldssektin sem landlækni beri að greiða ekki há í ljósi umfangsins. „En í raun eru viðurlögin að Landlækni sé gert að bjóða út öll verkefni Heilsuveru og Heklu heilbrigðisneti.”

Þegar landlæknir fylgir ekki landslögum, hvað varðar útboð verkefna í heilbrigðismálum. Landlæknir setur reglur og umgjörð fyrir okkur sem störfum á þessu sviði og það er því lágmarkskrafa að embættið fari sjálft að landslögum

Fulltrúi Landlæknisembættisins segir málið umfangsmikið og eiga sér langan aðdraganda, líkt og úrskurðurinn beri með sér. „Næstu daga mun embættið fara ítarlega yfir niðurstöðu nefndarinnar. Aðeins að lokinni þeirri vinnu hyggst embættið tjá sig frekar um málið.”

Í ljósi þessarar niðurstöðu þurfi embættið nú að taka afstöðu til þess hvort það muni lúta henni að fullu eða að hluta. „Jafn mikilvægt er síðan að draga fram og undirstrika þann lærdóm sem draga má af niðurstöðunni.”

Óeðlilegt að lítið frumkvöðlafyrirtæki þurfi að standa í svona málarekstri

Þorbjörg Helga segir niðurstöðuna súrsæta. „Því það lýsir mjög óeðlilegu umhverfi að lítið félag eins og okkar þurfi að standa í svona máli sem frumkvöðlafyrirtæki. Frumkvöðlar verða að eiga þess kost að geta unnið með opinberum aðilum og bætt umhverfi sjúklinga og þeirra sem minna mega sín. Þeir þurfa að hafa aðgang að íslenskum kerfum og og þannig stækkað og byggt sig upp á Íslandi til að geta farið svo erlendis að selja sínar vörur. Við vonum innilega að þessi dómur verði til þess að að stórfelldar breytingar verði gerðar á þessu óeðlilega og ólöglega fyrirkomulagi,” segir hún.

Það gengur heldur ekki upp að Embætti landlæknis gefi lausnum eins og okkar “leyfi” til að starfa á heilbrigðismarkaði en byggi og þrói samtímis hugbúnaðarlausnir án útboðs fyrir milljarða króna

Nú sé það ríkisstjórnar Íslands, heilbrigðisráðherra og nýsköpunarráðherra, að taka fast á þessu risastóra máli. Þau hafa verið skýr með það að tæknibyltingin eigi að bæta þjónustu í kerfinu og hagræða.”

Sprotar greiði einkafyrirtæki til að fá að tengjast kerfum almennings

Þorbjörg Helga segir þræði málsins þannig liggja víða en Kara Connect kærði einnig innkaup landlæknis á Sögu sjúkraskrárkerfi um árabil. Kerfið, sem þekkt er sem sjúkraskrárkerfi Íslendinga, er alfarið í eigu Origo hf. 

Ísland þarf að stíga inn í nýja tíma þar sem hugbúnaður tengist saman. Það gengur ekki upp að sprotar þurfi að greiða Origo milljónir til að fá að tengjast kerfum sem íslenska ríkið hefur greitt margsinnis fyrir.

Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu í þeim anga málsins að vegna þeirra flóknu kóða sem búa að baki Sögukerfinu sem þróað hefur verið frá árinu 1993, hafi landlækni verið heimilt að stunda reikningsviðskipti við Origo er lýtur að eiginlegri þróun á Sögukerfinu, enda hefði ekki verið unnt að bjóða slíkt út vegna höfundaréttar Origo hf.

„Ísland þarf að stíga inn í nýja tíma þar sem hugbúnaður tengist saman. Það gengur ekki upp að sprotar þurfi að greiða Origo milljónir til að fá að tengjast kerfum sem íslenska ríkið hefur greitt margsinnis fyrir. Það gengur heldur ekki upp að Embætti landlæknis gefi lausnum eins og okkar “leyfi” til að starfa á heilbrigðismarkaði en byggi og þrói samtímis hugbúnaðarlausnir án útboðs fyrir milljarða króna," segir Þorbjörg Helga

Í svarinu frá landlækni segir að Hekla heilbrigðisnet, sjúkraskrárkerfið Saga og Heilsuvera séu burðarstoðir íslenskrar heilbrigðisþjónustu. „Það er því embætti landlæknis mikilvægt sem og notendum þjónustunnar að rétt sé staðið að þróun þeirra og rekstri.”

Ekki í fyrsta sinn sem fundið er að þróun Heilsuveru

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slegið hefur verið á putta landlæknisembættisins vegna viðskipta með Heilsuveru, en kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu árið 2018 að landlækni hefði borið að bjóða út gerð vefsins í samræmi við lög um opinber innkaup.

„Sambærilegur úrskurður hefur fallið áður án þess að neitt breyttist í kjölfarið. Það er því mikilvægt að spyrja hvað íslenska ríkið ætlar að gera í kjölfar þessa úrskurðar,” spyr Þorbjörg Helga að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×