Innherji

Um hvað snýst stríðið í Úkraínu?

Valur Gunnarsson skrifar
Víða um heim hafa brotist út mótmæli eftir að her Rússlands gerði innrás í Úkraínu eftir skipun frá Vladimír Pútín, forseta Rússlands, aðfaranótt fimmtudags.
Víða um heim hafa brotist út mótmæli eftir að her Rússlands gerði innrás í Úkraínu eftir skipun frá Vladimír Pútín, forseta Rússlands, aðfaranótt fimmtudags. Vísir/Getty

Stríð byrja skyndilega en eiga sér þó jafnan aðdraganda.

Stríðið sem hófst þann 24. febrúar 2022 er framhald af stríði sem hefur staðið í Donbass héruðum Úkraínu í átta ár og kostað hátt í 15.000 manns lífið. Aðdraganda þess var að finna í Maidanmótmælunum í Kyiv í byrjun árs 2014 sem steyptu Janúkóvits Úkraínuforseta af stóli. Sá þótti hallur undir Pútín og þegar hann hafnaði viðskiptasamning við Evrópusambandið til að fá rússneskt lán í staðinn fékk fólk nóg og bolaði honum frá með mótmælum sem kostuðu yfir 100 manns lífið.

Maidanmótmælin í Kyiv í byrjun árs 2014. Vísir/Getty

Viðbrögð Pútíns voru snörp, ómerktur rússneskur her tók yfir Krímskaga, því lýst yfir að Krím væri nú orðið sjálfstætt frá Úkraínu og skaginn í kjölfarið innlimaður í Rússland. Á sama tíma var hvatt til uppreisnar í helstu rússneskumælandi svæðum Úkraínu, en það var aðeins í hluta héraðanna Donetsk og Luhansk að kallinu var svarað.

Nokkrar ástæður má nefna fyrir því að íbúar þar brugðust svo við. Hin nýja stjórn í Kænugarði ákvað að setja lög sem bönnuðu rússnesku sem opinbert tungumál til jafns við úkraínsku og varð mörgum bylt við, þingið dró ályktunina til baka en skaðinn var þá þegar skeður.

Undirliggjandi ástæður voru svo þær að Donbass svæðið hafði verið með helstu iðnaðarsvæðum Sovétríkjanna, en eftir fall þeirra hafði dregið mjög úr framleiðslu og mun minni eftirspurn eftir kolum og stáli. Atvinnuleysi var mikið, fólki fannst það afskipt af yfirvöldum og taldi það að ganga í Rússland skárri kost, enda lítur það á sig sem Rússa. Líklega sáu sumir það í hillingum að meðaltekjur í Rússlandi eru þrátt fyrir allt þrefalt hærri en í Úkraínu, sem er eitt fátækasta ríki álfunnar.

Vont og það versnar

En allt fór á versta veg. Aðskilnaðarsinnar vopnuðust og Úkraínumenn voru vanbúnir til að takast á við slíkt eftir spillingu Janúkóvits áranna. Sjálfboðaliðasveitir frá Maidan mótmælunum gripu til vopna og héldu af stað. Hart var barist, í fyrstu höfðu aðskilnaðarsinnar betur en Úkraínummönnum tókst að koma skikk á herinn, stöðva sókn þeirra og endurheimta svæði. Hergögn hófu nú að berast frá Rússlandi aðskilnaðarsinnum til handa og líklega ómerktir hermenn líka. Rússar hafa alla tíð hafnað því að eiga beinan þátt í þessum átökum þótt ljóst megi vera að aðskilnaðarsinnar hafi verið algerlega upp á þá komnir. Sótt var að Mariupol, hafnarborgar syðst í Donbass og fólk farið að grafa skotgrafir utan við bæinn þegar samið var um vopnahlé í Minsk. Vopnahlé þetta hefur ekki verið haldið, enn var skotið og féllu 66 manns í fyrra svo dæmi sé nefnt, en komið var í veg fyrir meiriháttar átök.

Sótt var að Mariupol, hafnarborgar syðst í Donbass og fólk farið að grafa skotgrafir utan við bæinn þegar samið var um vopnahlé í Minsk. Vopnahlé þetta hefur ekki verið haldið.Vísir/Getty

Í friðarsamningunum var gert ráð fyrir því að héruðin tvö yrðu sjálfstjórnarhéruð innan Úkraínu, eitthvað sem Úkraínumönnum leyst illa á því þar með gæti Pútín í gegnum þau mögulega beitt neitunarvaldi landið, til dæmis ef það reyndi að ganga í NATO eða ESB. Dregist hefur að hrinda þessu í framkvæmd og á meðan mallaði stríðið áfram.

Að baki öllu liggur loforð George W. Bush Bandaríkjaforseta frá árinu 2008 um að Georgía og Úkraínu fengju einhvern daginn að ganga í NATO. Pútín hafði lýst því yfir í ræðu í Munchen árið áður að Rússar myndu ekki sætta sig við frekari stækkanir NATO, en þar sem hann taldi sig hunsaðan var gripið til aðgerða. Þegar átök brutust út á milli aðskilnaðarsinna og stjórnarhers Georgíu í ágúst 2008 var rússnesku herinn sendur á vettvang, greiddi þeim georgíska nokkur þung högg en dró sig til baka eftir fimm daga stríð. 

Aðskilnaðarhéruðin Abkhasía og Suður-Ossetía urðu í kjölfarið sjálfstæð undir verndarvæng Rússa, en fáir aðrir hafa viðurkennt þau. Með yfirlýsingu sinni um sjálfstæði Donetsk og Luhansk að kvöldi 22. febrúars gerðist Pútín beinn aðili að átökum þessum og herinn var sendur inn. Fyrr um daginn virtist sem hann og Macron Frakklandsforseti hefðu náð samkomulagi um að hrinda Minsk samkomulaginu í framkvæmd en með hernaðaraðgerðum Pútíns var sá möguleiki endanlega fyrir bí.

Um tíma virtist sem Pútín og Macron Frakklandsforseti hefðu náð samkomulagi um að hrinda Minsk samkomulaginu í framkvæmd en með hernaðaraðgerðum Pútíns var sá möguleiki endanlega fyrir bí.Vísir/Getty

Nokkrar slæmar sviðsmyndir

Enginn veit hvað Pútín ætlast í raun fyrir með núverandi stríði. Viðskiptaþvinganir Vesturlanda sem settar voru á eftir innlimun Krímskaga hafa að mestu komið í veg fyrir að mikill hagvöxtur sé þar í landi og nú mun harðna á dalnum til muna. 

Pútín á 600 milljarða dollara olíusjóð sem munu brynja Rússa fyrir miklum efnahagsáföllum fyrsta kastið, en hratt mun ganga á sjóðinn í langvinnu stríði. Ljóst er að efnahagurinn mun bíða hnekki sem líklega mun draga enn úr ört dvínandi vinsældum hans á heimavelli. 

Hafi ætlunin verið að draga úr áhuga Úkraínumanna til að ganga í NATO munu þeir nú tvíeflast í þeirri viðleitni, þó mörg Evrópuríki efist um að ráðlagt sé að bjóða þeim inn og lenda þar með í líklegu stríði við Rússa. Í millitíðinni munu Úkraínumenn fá hergögn frá NATO en varla beinan herstuðning. Enn á eftir að koma í ljós hvort þetta muni duga til að hrinda innrásinni. Ljóst má þó vera að NATO mun efla vígbúnað sinn til muna, í Eystrasaltslöndunum og líklega á Íslandi einnig, svo segja má að vígbúnaðarkapphlaup í anda kalda stríðsins sé þegar hafið. Efnahagur Rússlands má illa við slíku, enda hafa þeir úr mun minni fjármunum að spila þegar allt kemur til alls.

Stríð Pútíns hafa hingað til bakað Rússum mikla óvild í nágrannaríkjum sem endast mun um langa framtíð og þótt hann hafi til skamms tíma farið með sigur af hólmi hingað til er ekki víst að svo verði nú.

Allar sviðsmyndir eru slæmar. Ef til vill er skásti kosturinn sá að Rússar geri það sama og í Georgíu, reyni að valda Úkraínuher sem mestum skaða og dragi sig svo til baka en haldi eftir Donetsk og Luhansk. Reyni þeir að leggja undir síg stór landsvæði í Úkraínu munu Úkraínumenn að öllum líkindum berjast heiftúðlega á móti jafnt með her sem andspyrnuhreyfingum, óbreyttir borgarar grípa til vopna og mannfall verða skelfilegt

Í það minnsta má segja að varla verður mjög friðvænlegt í álfunni á meðan Pútín er enn við völd sem hefur nú hafið stríð sem þjóð hans hefur lítinn áhuga á. Ef til vill telur hann sig vera að efla völd sín til skamms tíma, en mögulega eru einhverjir í kringum hann farnir að hugsa sinn gang. Stríð hans hafa hingað til bakað Rússum mikla óvild í nágrannaríkjum sem endast mun um langa framtíð og þótt hann hafi til skamms tíma farið með sigur af hólmi hingað til er ekki víst að svo verði nú. Einhvern daginn mun hann láta af völdum og vonandi gefst þá aftur tækifæri til friðar sem ekki verður glutrað niður eins og gerðist við endalok kalda stríðsins.

Höfundur er rithöfundur og hefur meðal annars skrifað bókina Bjarmalönd: Rússland, Úkraína og nágrenni í nútíð, fortíð og framtíð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×