Innherji

Heilsugæslan kærð fyrir að versla hraðpróf fyrir 380 milljónir án útboðs

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda, segist ekki trúa öðru en að næstu innkaup hraðprófa verði í samræmi við lög. Ef ekki, sé það til marks um mjög einbeittan brotavilja Heilsugæslunnar.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda, segist ekki trúa öðru en að næstu innkaup hraðprófa verði í samræmi við lög. Ef ekki, sé það til marks um mjög einbeittan brotavilja Heilsugæslunnar. VÍSIR/VILHELM

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hóf bæði verðfyrirspurnarferli og formlegt útboðsferli, en kláraði hvorugt og keypti inn hraðpróf fyrir tæplega 380 milljónir króna án útboðs. 

Hraðprófin voru keypt af tveimur fyrirtækjum, á skjön við lög um opinber innkaup samkvæmt kæru Félags atvinnurekenda fyrir hönd félagsmanns síns til Kærunefndar útboðsmála og var send nefndinni fyrr í dag.

Heilsugæslan vísar til þess í svörum sínum um málið að neyðarástand hafi ríkt vegna kórónuveirufaraldursins, sem hafi gert að verkum að ekki var hægt að fara að lögum.

„Við berum brigður á þá skýringu,” segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

„Það bara gengur ekki að halda því fram að varðandi opinber innkaup, sem stóðu yfir í níu mánuði og námu tæplega 380 milljónum króna, hafi ríkt neyðarástand allan tímann.”

Fram kemur í kærunni að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafi keypt SARS-CoV-2 antigen hraðpróf af fyrirtækjunum Medor ehf. og ISM ehf. fyrir samtals kr. 379.800.000 án þess að fara í útboð eða gegnum gagnvirka innkaupakerfið.

Hefðu getað sparað 85 milljónir miðað við fyrirliggjandi tilboð

Að sögn Ólafs er lagagreinin sem heilsugæslan vísar til, undantekningarregla frá meginreglu laganna um opinber innkaup og hljóti að þurfa að beita henni mjög varlega. „Það skapar mjög slæmt fordæmi að stjórnvöld geti ítrekað vísað í neyðarástand til að koma sér hjá því að fara að lögum um opinber innkaup.”

Samkvæmt útreikningum FA hefði Heilsugæslan getað sparað um 85 milljónir króna, miðað við þau tilboð sem fyrir lágu frá einum af félagsmönnum FA. „Sá félagsmaður bauð hraðpróf, sem fengið hafa opinbera viðurkenningu hér á landi. Einn tilgangur laganna um opinber innkaup er einmitt að tryggja að fé skattgreiðenda sé ekki sóað að óþörfu.”

Nú hefur því verið lýst yfir af hálfu stjórnvalda að næstu vikur verði nánast öllum vísað í hraðpróf til að greina Covid-sýkingu. 

Einn tilgangur laganna um opinber innkaup er einmitt að tryggja að fé skattgreiðenda sé ekki sóað að óþörfu

„Við trúum ekki öðru en að næstu innkaup hraðprófa verði gerð í gegnum gagnvirkt innkaupakerfi Ríkiskaupa, í samræmi við lög. Ef það verður ekki gert, er það til marks um mjög einbeittan brotavilja Heilsugæslunnar,” segir Ólafur að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×