Innlent

For­sætis- og utan­ríkis­ráð­herra Ís­lands for­dæma á­rásina á Úkraínu for­taks­laust

Jakob Bjarnar skrifar
Þórdís Kolbrún og Katrín hafa fordæmt árás Rússa fortakslaust. Þær eru hér ásamt Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra á tröppum ráðherrabústaðarins við Tjarnargötu.
Þórdís Kolbrún og Katrín hafa fordæmt árás Rússa fortakslaust. Þær eru hér ásamt Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra á tröppum ráðherrabústaðarins við Tjarnargötu. vísir/vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkiráðherra hafa fordæmt árás Rússa án fyrirvara.

Þetta gera þær Katrín og Þórdís á Twitter og er yfirlýsing þeirra á ensku.

„Ég fordæmi þessa tilefnislausu árás Rússlands á Úkraínu. Hún er skýrt brot á alþjóðalögum. Kjarninn í utanríkisstefnu Íslands er virðing fyrir alþjóðalögum og friðhelgi landamæra og lögsögu. Ísland tekur undir og mun innleiða alþjóðlegar refsiaðgerðir vegna hernaðaraðgerðanna,“ segir Þórdís jafnframt á íslensku.

Katrín lýsir því einnig yfir að Ísland fordæmi fortakslaust hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu. Árásina segir hún óásættanlegt brot á alþjóðlegum lögum. Líf óbreyttra borgara eigi og hljóti ávallt að vera í fyrirrúmi. Og í sama streng tekur forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson en hann vitnar í twitter-færslu Katrínar.

Ýmsir íslenskir stjórnmálamenn aðrir taka í sama streng. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar hvetur til þess að við fordæmum harðlega innrás Rússa í Úkraínu: „Hún er ógnvekjandi árás á gildi okkar og atlaga að lýðræði. Sýnum afdráttarlausa samstöðu í gegnum Nato og með ESB. Afgerandi aðgerða er þörf. Putin þarf að mæta af fyllstu hörku. Kalda stríðið kann að falla í skuggann af því sem koma skal.“

Annar stjórnarandstöðuþingmaður, Björn Leví Gunnarsson Pírati vitnar í fréttir; „forseti Rússlands hefur ákveðið að beita hernum til varnar aðskilnaðarsinnum“ og segir réttlætingarpólitíkina í hámarki.

„Það er auðveldlega hægt að verja aðskilnaðarsinna á allt annan hátt. Hér ber Pútín þó ekki einn ábyrgð. Meintir „friðarsinnar“ sem ögra birninum verða að axla sinn hluta ábyrgðarinnar. Það hlakkar amk í öllum vopnaframleiðendum þegar svona atburðir gerast.“


Tengdar fréttir

„Þetta er stríð“

Sendiherra Úkraínu hjá Sameinuðu þjóðunum segir að átökin sem hafin eru þar í landi séu stríð. Rússar hófu allsherjarinnrás í landið í morgun og sprengjum rignir nú yfir úkraínskar borgir. 

Sprengjum rignir yfir Kænugarð

Rússneskar hersveitir skutu flugskeytum á nokkrar borgir í Úkraínu í morgun. Stór hópur hermanna réðist þá inn í sunnanvert landið í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×