Fótbolti

„Þeir eru að gera allt til að stoppa okkur“

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið hefur verið að gera það gott í Bandaríkjunum og unnið bæði Nýja-Sjáland og Tékkland, og þar með tryggt sér úrslitaleik við Bandaríkin í SheBelieves mótinu.
Íslenska landsliðið hefur verið að gera það gott í Bandaríkjunum og unnið bæði Nýja-Sjáland og Tékkland, og þar með tryggt sér úrslitaleik við Bandaríkin í SheBelieves mótinu. Getty/Omar Vega

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er mætt til Texas eftir góða dvöl í Kaliforníu, fyrir úrslitaleikinn gegn Bandaríkjunum í SheBelieves Cup aðfaranótt fimmtudags. Ferðin gekk þó ekki þrautalaust.

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari gerði heilar tíu breytingar á byrjunarliði sínu á milli sigranna á Nýja-Sjálandi aðfaranótt föstudags og Tékklandi aðfaranótt mánudags.

Segja má að hálfgert B-lið hafi mætt Tékkum í 2-1 sigrinum í síðasta leik en Þorsteinn mun gera margar breytingar fyrir rimmuna við heimsmeistara Bandaríkjanna:

„Þið megið eiga von á töluverðum breytingum, myndi ég segja, þó að ég sé ekki búinn að ákveða alveg byrjunarliðið. Það er það stutt á milli leikja,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi í dag, að morgni til í Texas.

„Við vorum líka að ferðast í gær. Bandaríkjamennirnir seinkuðu fluginu okkar þannig að við erum enn þreyttari eftir að hafa bara komist upp á hótel um miðnætti. Þeir eru að gera allt til að stoppa okkur,“ bætti Þorsteinn við laufléttur.

Sandra ekki leikfær í fyrstu tveimur leikjunum

Hann ætti að geta stillt upp sínu allra sterkasta liði gegn Bandaríkjunum en þó leikur vafi á því að markvörðurinn Sandra Sigurðardóttir geti spilað:

„Sú eina sem er tæp fyrir morgundaginn er Sandra markvörður. Það tóku sig upp smámeiðsli á æfingu um daginn og hún er tæp, en við tökum stöðuna á henni síðar í dag. Þetta kom upp fyrir leik númer eitt, sem hún átti svo sem ekki að byrja, og hún hefur því ekki verið leikfær fyrstu tvo leikina. Við tökum ákvörðun í dag með framhaldið,“ sagði Þorsteinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×