Fótbolti

Zlatan gæti þurft að lækka launin sín um 65 prósent

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic í leik með AC Milan í Meistaradeildinni á þessu tímabili.
Zlatan Ibrahimovic í leik með AC Milan í Meistaradeildinni á þessu tímabili. Getty/Nicolò Campo

Zlatan Ibrahimovic er orðinn fertugur og það lítur út fyrir að hann þurfi að lækka sig mikið í launum ætli hann að spila áfram með ítalska félaginu AC Milan.

Samkvæmt upplýsingum sem Tuttomercatoweb hefur þá hefur AC Milan boðið Svíanum nýjan samning en með 65 prósent lægri laun en hann fær í dag.

Ibrahimovic hefur verið mikið meiddur á þessu tímabili og næstum því misst af helmingi leikjanna.

Í Seríu A hefur hann spilað 15 leiki í fyrstu 26 umferðunum og er með átta mörk og tvær stoðsendingar í þeim.

Zlatan er að fá um einn milljarð í íslenskum krónum í laun fyrir þetta tímabil en fengi bara í kringum 345 milljónir samþykki hann nýjan samning.

Það er ekki búist við því að Ibrahimovic taki ákvörðun strax um framhaldið enda þarf hann að sjá betur hvers staðan er á skrokknum.

Ibrahimovic er að reyna að vinna ítalska meistaratitilinn í annað skiptið með AC Milan og þann fyrsta síðan 2011. Hann varð þrisvar sinnum ítalskur meistari með nágrönnunum í Internazionale.

Zlatan hefur lítið spilað að undanförnu en hann hefur verið duglegur að sýna myndbönd með sér að æfa eins og dæmi er um hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×