Fótbolti

Aguero gæti verið með Argentínu á HM en í nýju hlutverki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero og Lionel Messi fagna sigri Argentínu í Suðurameríkukeppninni síðasta sumar.
Sergio Aguero og Lionel Messi fagna sigri Argentínu í Suðurameríkukeppninni síðasta sumar. Getty/Buda Mendes

Argentínska knattspyrnugoðsögnin Sergio Aguero varð að leggja skóna á hilluna á dögunum vegna hjartavandamála en svo gæti farið að hann missi samt ekki að næsta heimsmeistaramótinu sem fer fram í Katar í nóvember og desember á þessu ári.

Aguero segist vera að ræða við landsliðsþjálfarann Lionel Scaloni um að fá að taka þátt í mótinu en bara í öðru og nýju hlutverki.

Aguero samdi við Barcelona í sumar en meiddist á síðustu æfingu fyrir tímabilið og varð síðan að leggja skóna á hilluna eftir að hafa fundið fyrir hjartsláttartruflunum í leik með Barcelona 30. október.

Sex vikum eftir þann leik tilkynnti hann um að fótboltaskórnir væru komnir upp á hillu en Argentínumaðurinn er enn bara 33 ára gamall.

Aguero ætlaði sér alltaf að spila á sínu fjórða heimsmeistaramóti en ekkert verður að því. Hann hefur aftur á móti fengið tilboð um að vera í þjálfarateymi argentínska landsliðsins.

„Ég vil fara á þetta heimsmeistaramót. Ég ræddi við Scaloni. Hann hringdi í mig og heyrði líka í strákunum í liðinu,“ sagði Sergio Aguero.

„Við erum að horfa til þess að hittast í vikunni og sjá hvað er hægt að gera. Það er hugmynd um að ég verði hluti af teyminu. Ég gæti þá fengið að vera með leikmönnunum og taka þátt í æfingunum,“ sagði Aguero.

„Ef hjartslátturinn eykst þá vita læknarnir allt um það. Ég er kominn með gangráð. Fyrir nokkrum dögum var ég að hlaupa á hlaupabretti og spilaði einn leik af fótboltatennis en eftir það var ég andstuttur,“ viðurkenndi Aguero.

„Stundum velti ég því fyrir mér hvort ég geti nokkurn tímann sprett úr spori aftur. Ég er hræddur,“ sagði Sergio Aguero.

Sergio Aguero skoraði 41 mark í 101 landsleik. Hann varð fimm sinnum Englandsmeistari með Manchester City og er markhæsti erlendi leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar með 184 mörk í aðeins 275 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×