Innherji

Þorgerður fékk loðin svör frá Svandísi um hækkun veiðigjalda

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tókust á í þingsal fyrr í dag.
Svandís Svavarsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tókust á í þingsal fyrr í dag.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, kvað sér hljóðs í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi fyrr í dag og vildi knýja fram afstöðu ráðherra sjávarútvegsmála, Svandísar Svavarsdóttur, til hækkunar veiðigjalda.

Þorgerður segir að dregið hafi til tíðinda þegar varaformaður Framsóknarflokksins fullyrti á dögunum að þingflokkur Framsóknar væri sammála henni um að hægt væri að hækka veiðigjöldin og það ætti að gera. 

Svandís svaraði formanninum því til að það ætti alltaf að vera til umræðu hversu mikið sjávarútvegurinn leggur til í sameiginlega sjóði og að nefnd um sjávarútvegsmál taki brátt til starfa.

„Ég geri mér vel grein fyrir því að það er ekki vilji hjá þessari ríkisstjórn að fara þá leið í sjávarútveginum sem við í Viðreisn teljum að skili mestu fyrir þjóðina. Hún er skýrust, hún er gegnsæ, hún er réttlát og það er markaðsleiðin, að okkar mati leið sem um 80 prósent þjóðarinnar vilja líka fara,” segir Þorgerður.

Framsóknarflokkurinn hafi lýst sig tilbúinn í hækkun veiðigjalda

Svandís hafi hins vegar að mati Þorgerðar verið alveg skýr í þessum efnum fyrr á þessum þingvetri og það sé ljóst að það er ekki sú vegferð sem hún vill fara.

„En það hefur vissulega dregið til nokkurra tíðinda því að hér eru að melda sig inn flokkar innan ríkisstjórnar sem lýsa því yfir að þeir séu tilbúnir til þess að hækka veiðigjöld í núverandi umhverfi, hækka veiðigjöld á sjávarútveginn. Varaformaður Framsóknarflokksins fullyrti að þingflokkur Framsóknar væri sammála henni um að hægt væri að hækka veiðigjöldin og það ætti að gera. Þess vegna liggur beinast við að spyrja hæstvirtan matvælaráðherra hvort hún hyggist ekki nýta þetta mikilvæga tækifæri sem er nú að koma upp í hendurnar á okkur og um leið þá þennan skýra meirihluta hér á þingi því að það er meirihluti á þingi til þess að hreyfa við þessu ,” segir Þorgerður og spurði hvort ráðherra muni leggja fram tillögur um hækkun á veiðigjöldum og þá hvenær.

það hefur vissulega dregið til nokkurra tíðinda því að hér eru að melda sig inn flokkar innan ríkisstjórnar sem lýsa því yfir að þeir séu tilbúnir til þess að hækka veiðigjöld í núverandi umhverfi, hækka veiðigjöld á sjávarútveginn.

Verkáætlun um nefnd um sjávarútvegsmál á leið í samráðsgáttina

Svandís segir veiðigjöldin hafa verið til umfjöllunar um langt árabil. „Það er jafnframt ljóst að sá þáttur umbúnaðar sjávarútvegskerfisins er einn af þeim sem er til skoðunar þegar við förum í þá vinnu sem fram undan er. En ég lýsti því yfir hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrir nokkru síðan að ég hefði sett mér það að birta hér verkáætlun um nefnd um sjávarútvegsmál sem talað er um í stjórnarsáttmála,” segir Svandís og segir vinnunni miða vel áfram.

„Mitt plan er að fara með minnisblað í ríkisstjórn nú í vikulokin til að fara yfir stöðuna og setja þá verkáætlun í samráðsgátt stjórnvalda svo að almenningur geti átt aðkomu strax á fyrstu stigum. Ég held að það sé afar mikilvægt. Þarna erum við í raun og veru með allt undir og þá erum við bæði að tala um þau sjónarmið sem lúta að atvinnu og sértækum byggðaaðgerðum og hér hafa verið rædd strandveiðimál og svo framvegis. Líka þau mál sem lúta að samþjöppun aflaheimilda, milliverðlagningu og fleiri þáttum af því tagi, en ekki síður þeim málum sem hæstvirtur þingmaður nefnir hér sem eru þau sjónarmið sem lúta að því með hvaða hætti og hversu mikið sjávarútvegurinn leggur til í sameiginlega sjóði," segir Svandís og finnst að þessir þættir eigi alltaf að vera til umræðu í samfélaginu. 

Mitt plan er að fara með minnisblað í ríkisstjórn nú í vikulokin til að fara yfir stöðuna og setja þá verkáætlun í samráðsgátt stjórnvalda svo að almenningur geti átt aðkomu strax á fyrstu stigum. Ég held að það sé afar mikilvægt.

„Og ekki síður á þessum tímum þegar við erum að horfa til þess að við erum að vinna okkur út úr efnahagsáfalli."

Sakar ráðherrann um að skýla sér á bak við tillögugerðir

Þorgerður sagði í andsvari þetta svar ráðherrans vera flótta. „Það er verið að skýla sér á bak við, enn og aftur, kortlagningu, tillögugerðir og svo framvegis. Ég bara velti því fyrir mér hversu margar skýrslur hafa verið skrifaðar um þetta í gegnum tíðina fyrir utan allar þær skýrslur sem hafa ekki fengist birtar,” segir Þorgerður

„Mín spurning er mjög einföld, í ljósi þess að VG hefur meðal annars hafnað öllum tillögum okkar um tímabindingu samninga, um gegnsæi, um dreifða eignaraðild og svo framvegis. Staðan er gjörbreytt núna. Þetta er mjög skýr spurning: Ætlar ráðherra að taka varaformann Framsóknar og viðskiptaráðherra á orðinu og koma með tillögu um hækkun veiðigjalda? Þetta er einfalt svar: Já eða nei.”

Þetta er mjög skýr spurning: Ætlar ráðherra að taka varaformann Framsóknar og viðskiptaráðherra á orðinu og koma með tillögu um hækkun veiðigjalda? Þetta er einfalt svar: Já eða nei

Svandís svaraði hvorugu til. „Ég vil nefna þá ágætu staðreynd að ég hef verið ráðherra sjávarútvegsmála í tíu vikur,” og benti á að fyrirspyrjandi var ráðherra sjávarútvegsmála í tíu mánuði án þess að nokkuð drægi til tíðinda í þessum efnum.

„Við skulum sjá hvað setur og ég hef að minnsta kosti dregið þá ályktun, af því sem fyrr hefur verið gert í þessum málaflokki, að það sé mikilvægt að almenningur fái aðkomu. Það hafa fyrri ráðherrar ekki gert þegar um er að ræða stór verkefni af þessum toga en það verður gert að þessu sinni,” segir Svandís.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×