Aubameyang hlóð í tvennu í fyrsta byrjunarliðsleiknum í La Liga

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Marki fagnað með glæsibrag.
Marki fagnað með glæsibrag. vísir/Getty

Pierre-Emerick Aubameyang stimplaði sig inn af krafti í spænsku úrvalsdeildina í dag þegar Barcelona sótti Valencia heim og vann stórsigur.

Þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur Aubameyang í deildinni síðan hann gekk í raðir félagsins á lokadegi félagaskiptagluggans í janúar og hann sá um að koma Barcelona á bragðið með marki eftir 23 mínútna leik.

Skömmu síðar, eða á 32.mínútu tvöfaldaði Frenkie De Jong forystuna fyrir Börsunga eftir stoðsendingu frá Ousmane Dembele. Börsungar léku við hvurn sinn fingur í fyrri hálfleik og Aubameyang var aftur á skotskónum á 38.mínútu þegar hann skoraði eftir undirbúning spænska ungstirnisins Gavi.

Hálfleikstölur 0-3 og úrslitin svo gott sem ráðin.

Heimamenn byrjuðu þó síðari hálfleik af krafti því Carles Soler minnkaði muninn á 52.mínútu. 

Pedri sá hins vegar um að gera út um leikinn þegar hann skoraði fjórða mark gestanna frá Katalóníu á 63.mínútu og öruggur 1-4 sigur Barcelona staðreynd.

Mikilvæg stig í baráttunni um Meistaradeildarsæti fyrir Barcelona sem situr nú í 4.sæti deildarinnar með 42 stig, stigi á eftir Real Betis sem situr í 3.sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira