Umfjöllun: Tékkland - Ísland 1-2 | Tryggðu sér úrslitaleik og halda taki á Tékkum

Sindri Sverrisson skrifar
Hin þrítuga Natasha Anasi, sem hlaut íslenskan ríkisborgarétt í lok árs 2019, fagnar sínu fyrsta landsliðsmarki, gegn Tékkum í Kaliforníu í nótt.
Hin þrítuga Natasha Anasi, sem hlaut íslenskan ríkisborgarétt í lok árs 2019, fagnar sínu fyrsta landsliðsmarki, gegn Tékkum í Kaliforníu í nótt. Getty/Omar Vega

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína í SheBelieves Cup í Bandaríkjunum og mætir því heimakonum í úrslitaleik aðfaranótt fimmtudags.

Ísland vann 2-1 sigur á Tékklandi í nótt í spennandi og bráðfjörugum leik í Kaliforníu. Natasha Anasi skoraði sitt fyrsta landsliðsmark fyrir Ísland og Selma Sól Magnúsdóttir bætti við öðru á 18. mínútu en lokamínútur leiksins voru spennuþrungnar eftir að Michaela Khýrová minnkaði muninn á 85. mínútu.

Ísland hafði áður unnið Nýja-Sjáland 1-0 og dugar því jafntefli gegn Bandaríkjunum til að vinna mótið því Bandaríkin höfðu gert markalaust jafntefli við Tékkland áður en þau unnu stórsigur á Nýja-Sjálandi í gær, 5-0.

Ingibjörg Sigurðardóttir stýrði varnarleik Íslands og stóð sig vel í miðri vörninni.Getty/Omar Vega

Á síðustu fimm mánuðum hefur Tékkland gert tvö jafntefli við Evrópumeistara Hollands, sem og jafnteflið við heimsmeistara Bandaríkjanna, en hins vegar tapað báðum leikjum sínum við Ísland.

Ísland vann nefnilega líka þegar liðin mættust í undankeppni HM á Laugardalsveli í haust, 4-0, og vonandi tekst liðinu að halda sama taki á Tékkum í apríl þegar liðin mætast ytra í algjörum lykilleik upp á vonir Íslands um að komast á HM í fyrsta sinn.

Stilltu báðir upp B-liðum

Það var hins vegar eins og að þjálfarar liðanna vildu ekki sýna á sín helstu spil í nótt, ef til vill með leikinn í apríl í huga, því þeir stilltu báðir upp eins konar B-liðum. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var þannig sú eina í íslenska byrjunarliðinu sem einnig byrjaði leikinn gegn Nýja-Sjálandi, og aðeins tvær í byrjunarliði Tékka höfðu verið í byrjunarliðinu sem mætti Íslandi í haust.

Þetta var því leikur fyrir reynsluminni landsliðskonur til að sýna hvað í þær er spunnið og hin þrítuga Natasha, sem fékk íslenskan ríkisborgararétt fyrir rúmum tveimur árum, gerði það til dæmis með því að stanga boltann inn á tíundu mínútu og koma Íslandi yfir.

Amanda Andradóttir átti fyrirgjöfina og hún sýndi oft lipra takta í sóknarleik íslenska liðsins. Hún átti einnig stóran þátt í seinna marki Íslands því hún vann boltann á miðsvæðinu og hóf skyndisókn þar sem þær Karólína báru boltann fram og til Selmu Sólar sem skoraði með föstu skoti.

Íslenska liðið fagnar eftir fallegt skyndisóknarmark Selmu Sólar Magnúsdóttur.Getty/Omar Vega

Staðan var því álitleg eftir tuttugu mínútna leik, 2-0, en Tékkar höfðu þá þegar ógnað marki Íslands talsvert og héldu því áfram stóran hluta fyrri hálfleiks.

Telmu óx ásmegin í fyrsta leik

Telma Ívarsdóttir fékk sitt fyrsta tækifæri í marki Íslands en eftir að hafa virkað taugaóstyrk til að byrja með leysti hún sitt hlutverk með prýði og átti nokkrar mjög góðar vörslur. Ekki veitti af því Tékkar voru duglegir að skapa sér færi og fyrsta korterið í seinni hálfleik voru hreinlega eign Tékklands.

Telma varði til að mynda glæsilega frá Jitka Chlastaková á 54. mínútu, þannig að hún náði að slá boltann í stöng og út, rétt eftir að Tékkar höfðu komist í algjört dauðafæri þar sem sóknarmaður þeirra rann til í baráttu við Natöshu.

Tækifæri til að fullkomna ferðina

Leikurinn jafnaðist eftir þetta og það var ekkert sérstaklega í spilunum að Tékkar væru að fara að skora þegar Khýrová minnkaði muninn, og raunar hafði Natasha rétt áður átt þrumuskalla sem markvörður Tékka náði með einhverjum ólíkindum að verja.

Það lá á íslenska liðinu á lokamínútunum en stelpurnar okkar héldu út og innbyrtu sigur sem sýnir vel breiddina í íslenska hópnum.

Aðfaranótt fimmtudags gefst svo tækifæri til að fullkomna ferðina með góðum úrslitum gegn Bandaríkjakonum en til þess þarf Ísland að eiga hnökralausan leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira