Innlent

Sex sækjast eftir tveimur em­bættum að­stoðar­lög­reglu­stjóra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Karl Ingi og Hulda Elsa sækjast eftir embætti aðstoðarlögreglustjóra.
Karl Ingi og Hulda Elsa sækjast eftir embætti aðstoðarlögreglustjóra.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, staðgengill lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og sviðsstjóri ákærusviðs, og Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjórinn á Vestfjörðum, sækjast eftir lausri stöðu embættis aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Greint er frá þessu á vef dómsmálaráðuneytisins.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu auglýsti nýverið laus til umsóknar tvö embætti aðstoðarlögreglustjóra. Annars vegar var auglýst eftir aðstoðarlögreglustjóra á ákærusviði.

Það svið annast ákærumeðferð mála og eru starfsmenn sviðsins jafnframt lögreglumönnum innan handar við rannsóknir mála. Undir sviðið heyra þrjú ákæruteymi, eitt sem sinnir miðlægum málum embættisins, annað sem sinnir umferðarmálum og öðrum verkefnum og það þriðja sem sinnir verkefnum lögreglustöðva embættisins.

Hulda Elsa og Karl Ingi sækja um þá stöðu.

Hins vegar var auglýst eftir aðstoðarlögreglustjóra löggæslusviðs. Það svið sinnir almennri löggæslu og heyra fjórar lögreglustöðvar embættisins undir sviðið auk aðgerðardeildar og umferðardeildar.

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn, Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn, Jón Sigurður Ólason yfirlögregluþjónn og Kristján Ólafur Guðnason yfirlögregluþjónn sækja um þá stöðu.

Umsóknarfrestur rann út 16. febrúar og verður skipuð ráðgefandi hæfisnefnd sem fara mun yfir umsóknirnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×