Innlent

Yfir hundrað þúsund hafa nú greinst smitaðir á Íslandi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Yfir hundrað þúsund hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni hér á landi frá upphafi faraldursins.
Yfir hundrað þúsund hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni hér á landi frá upphafi faraldursins. Vísir/Vilhelm

Hundrað þúsund smita múrinn var brotinn í gær hérna á Íslandi. Nú hafa yfir hundrað þúsund greinst smitaðir af kórónuveirunni frá upphafi faraldurs, eða um fjórðungur þjóðarinnar.

Í gær greindust 2.317 smitaðir af kórónuveirunni. Um er að ræða 500 færri tilfelli heldur en í fyrradag, þegar met var slegið. Alls hafa nú 103.086 greinst smitaðir af veirunni frá upphafi. 

Rúmlega 4.721 sýni voru tekin til greiningar innanlands í gær og var því hlutfall jákvæðra sýna því um 50 prósent. 885 sýni voru tekin á landamærunum og greindust þar 92 smitaðir.

Alls eru nú 11.880 í einangrun með virkt smit, og fjölgar þeim um fjögur hundruð milli daga. Nýgengi smita innanlands er nú 7.469 en var í gær 7.170 og á landamærunum er nýgengið nú 249 en var 234 í gær.

Inniliggjandi á spítala eru nú 52 manns, þar af 45 á Landspítala. Fjórir eru á gjörgæslu og einn í öndunarvél.

Tæp tvö ár liðin frá fyrsta innanlandssmitinu

Í dag eru tæplega tvö ár síðan fyrsti Íslendingurinn greindist smitaður af kórónuveirunni innanlands. Sá greindist þann 28. febrúar 2020 en nú, rétt tæpum tveimur árum síðan, hafa hundrað þúsund greinst smitaðir af veirunni hér á landi. 

Niðurstöður mótefnarannsóknar Íslenskrar erfðagreiningar, sem birtar voru í lok janúar, benda til að tvisvar til þrisvar sinnum fleiri hafi sýkst af veirunni en hafi greinst smitaðir af henni. Því er ekki ólíklegt að rauntala þeirra sem smitast hafi hér á landi af kórónuveirunni sé nær 200 þúsund, þó opinberar tölur segi annað. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sögðu báðir 24. janúar að þeir teldu að hjarðónæmi verði náð fyrir páska og við laus við faraldurinn. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×