Innherji

Búist við hitafundi fulltrúaráðs Sjálfstæðismanna á morgun

Ritstjórn Innherja skrifar
Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins eru sammála um að meginreglan hjá flokknum sé sú að halda kjörskrá opinni fram á síðasta dag prófkjörs. Tillaga Varðar um að loka kjörskránni tveimur vikum fyrir kjördag hefur víða fallið í grýttan jarðveg.
Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins eru sammála um að meginreglan hjá flokknum sé sú að halda kjörskrá opinni fram á síðasta dag prófkjörs. Tillaga Varðar um að loka kjörskránni tveimur vikum fyrir kjördag hefur víða fallið í grýttan jarðveg.

Ákvörðun Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaga í Reykjavík, um að loka kjörskrá tveimur vikum fyrir kjördag í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík hefur reynst umdeild meðal flokksmanna. 

Formaður flokksins segir prófkjör mjög mikilvægan lið í félagsstarfi Sjálfstæðisflokksins þar sem hefð sé fyrir því að skapa margar snertingar við nýja félagsmenn. Varaformaðurinn segir að það kæmi henni á óvart ef ekki yrði borin upp gagntillaga um að hafa kjörskrá opna fram að prófkjöri á fulltrúaráðsfundi flokksins á morgun. Á þeim fundi verður tekin endanleg ákvörðun um það hvort kjörskrá verði lokað eða henni haldið opinni fram á síðasta dag prófkjörsins sem fram fer um miðjan mars.

„Það eru afar fá fordæmi fyrir þessari leið sem þarna er lögð til, í fljótu bragði man ég eftir einu skipti,” segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Þrengingar í þátttöku í prófkjörum ekki til að laða fólk í flokkinn

„Sjálfstæðisflokkurinn er lýðræðishreyfing þar sem þátttaka í prófkjörum er mjög mikil og við erum stolt af þeirri þátttöku. Ríkur þáttur í prófkjörum er sú mikla nýliðun sem þeim fylgir og er okkur mikilvæg. Við viljum laða til okkar og taka vel á móti nýju fólki. Hvers kyns þrengingar í þátttöku í prófkjörum eru ekki til þess fallnar að að gera það,” segir varaformaðurinn jafnframt.

Ákvörðunin sé hins vegar fulltrúaráðsins að taka. „Ég býst við fjölmennum fundi og það kæmi mér satt að segja á óvart ef ekki kæmi fram gagntillaga.”

Í öllu falli sé gott að finna kraftinn sem fylgir prófkjörum. „Og finna kraftinn í undirbúningi sveitarstjórnarkosninga aukast dag frá degi víða um land í okkar röðum,” segir Þórdís.

Bjarni segir prófkjör mjög mikilvæg í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins. 20 þúsund manns hafi tekið þátt í prófkjörum um allt land í prófkjörum til þingsins síðastliðið vor.VÍSIR/VILHELM

Bjarni Benediktsson formaður flokksins segir ákvörðunina um að loka kjörskránni tveimur vikum fyrir prófkjörsdag í höndum félagsmanna í Reykjavík. Hann segir Sjálfstæðismenn hins vegar frekar hafa vanist því að opið sé fyrir nýliðun fram á síðasta dag.

„Og prófkjör okkar eru mikilvægur liður í félagsstarfi flokksins, þar sem við sköpum margar snertingar við nýja félagsmenn. Við höfum náð að virkja, eins og í prófkjörunum í fyrra, 20 þúsund manns til að taka þátt í því að stilla upp listunum okkar.”

Birta Karen Tryggvadóttir og Kári Freyr Kristinsson, sem leiða framboðslista til stjórnarsetu í Heimdalli eru ekki par hrifin af fyrirætlunum Varðar.

Heimdellingar segja ákvörðunina takmarka áhrif flokksmanna

DV greindi fyrst frá því í byrjun viku, að Heimdallur sem er félagsskapur ungra Sjálfstæðismanna, hefði ályktað um að ákvörðun Varðar skjóti skökku við í ljósi þess að flokkurinn hafi státað sér af „lýðræðisveislu" í prófkjörum fyrir þingkosningarnar og nú eigi að beygja af þeirri leið.

„Í alþingiskosningunum í haust státaði flokkurinn sig af því að boða til lýðræðisveislu en þessi ákvörðun stjórnar Varðar gengur þvert á þessa stefnu. Með því að loka kjörskránni tveimur vikum fyrir kjördag er stjórn Varðar að setja skorður á hvaða flokksfélagar geta kosið og eru með því að takmarka áhrif flokksmanna og jafnframt möguleika flokksins til að fjölga skráðum flokksmönnum," segir í tilkynningu sem Heimdallur sendi frá sér vegna málsins.

Búast má við fjörugum fulltrúaráðsfundi flokksins á morgun þar sem þessi mál verða skeggrædd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×