Innherji

Kippur í útflutningi skilar hagstæðum vöruskiptum í fyrsta sinn í sjö ár

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Frá álverinu í Straumsvík. Útflutningur áls ber höfuð og herðar yfir annan útflutning.
Frá álverinu í Straumsvík. Útflutningur áls ber höfuð og herðar yfir annan útflutning. VÍSIR/VILHELM

Verðmæti vöruútflutnings í janúar voru rúmum milljarði meiri en verðmæti vöruinnflutnings samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands. Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, bendir á að þetta sé í fyrsta sinn frá því í mars 2015, ef litið er fram hjá flugvélasölu WOW air í byrjun árs 2019, sem vöruskipti við útlönd eru hagstæð.

Til samanburðar voru vöruskipti óhagstæð um tæpa 5 milljarða króna á föstu gengi í janúar 2021 og nemur viðsnúningur milli ára því um 6 milljörðum króna.

Arion banki

„Ástæðuna fyrir viðsnúningnum má ekki rekja til uppgjafar innflutningshliðarinnar, þvert á móti þá jókst innflutningur um 45 prósent milli ára á föstu gengi,“ segir Erna Björg. Ástæðan er kröftugur vöxtur í útflutningi.

„Alls jókst útflutningur um hvorki meira né minna en 63 prósent milli ára og hafa verðmæti vöruútflutnings aldrei verið jafn mikil ef frá er talinn fyrrnefndur flugvélasölumánuður.“

Arion banki

Útflutningur á áli bar höfuð og herðar yfir annan vöruútflutning. Verðmæti álútflutnings námu tæplega 33 milljörðum króna í janúar og jukust um 70 prósent milli ára. Verðmæti útflutnings sjávarafurða nam tæpum 25 milljörðum og jókst um 51 prósent milli ára. Þá var 97 prósenta aukning á verðmæti útflutnings afurða úr fiskeldi sem námu tæplega 6 milljörðum króna í janúar.

Hvað innflutningsvöxtinn varðar segir Erna Björg að hann endurspegli ekki aðeins mikinn kraft í innlendri eftirspurn heldur einnig verðhækkanir á hrávörum og neysluvörum. „Það er nokkuð ljóst að innfluttur verðbólguþrýstingur er og verður áfram verulegur.“


Tengdar fréttir

Samkaup vara birgja við því að stökkva á vagn verðhækkana

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, segir að matvörukeðjur fyrirtækisins hafi á síðustu vikum fengið vel á annað hundrað boð um verðhækkanir sem nema að jafnaði um fimm prósentum. Þessar hækkanir eru ekki enn komnar fram í smásöluverði og fyrirtækið hefur hvatt birgja til að stökkva ekki á „verðhækkanavagninn“ nema af góðri ástæðu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×