Fótbolti

Bretar og Írar hættir við að sækja um HM í fótbolta 2030

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þessi bikar fer ekki á loft á Wembley sumarið 2030.
Þessi bikar fer ekki á loft á Wembley sumarið 2030. Getty/Marc Atkins

Bretland og Írland vildu fá að halda heimsmeistarakeppnina í fótbolta eftir átta ár en ekki lengur. HM 2030 fer því ekki fram í Englandi, Skotlandi, Wales, Norður-Írlandi eða Írlandi.

Breska ríkisstjórnin lét framkvæma hagkvæmni könnun á því að halda heimsmeistaramót miðað við það að halda Evrópumót. Helstu niðurstöður voru þær að halda HM sé risafengið, rándýrt hégómafullt verkefni.

Það þýddi jafnframt að knattspyrnusambönd þjóðanna ætla að einbeita sér frekar að því að fá að halda Evrópukeppnina sumarið 2028.

Að halda EM skilar svipuðu til baka og HM en kostnaður við slíka keppni er miklu minni.

Þrátt fyrir minni keppni þá er ætlun allra knattspyrnusambandanna fimm að halda áfram að vinna saman.

HM 2030 er söguleg keppni því þá verða hundrað ár liðin frá því að heimsmeistarakeppnin fór fram í fyrsta sinn í Úrúgvæ 1930.

Úrúgvæ er að bjóða sig fram á ný en nú í samstarfi með nágrönnum sínum frá Argentínu, Paragvæ og Síle.

Það er líka framboð frá Marokkó sem og tvö framboð frá Evrópu.

Annað þeirra er sameiginlegt framboð frá Íberíuþjóðunum Spáni og Portúgal. Hitt er frá Balkanskaganum eða sameiginlegt framboð frá Búlgaríu, Grikklandi, Rúmeníu og Serbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×