Fótbolti

Skilur ekki af hverju Salah tók ekki víti gegn Senegal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah tekur við silfurmedalíu eftir úrslitaleik Afríkukeppninnar.
Mohamed Salah tekur við silfurmedalíu eftir úrslitaleik Afríkukeppninnar. epa/FOOTOGRAFIIA

Jamie Carragher botnar ekkert í ákvörðun Egypta að láta Mohamed Salah taka fimmtu spyrnu liðsins í vítaspyrnukeppninni gegn Senegölum í úrslitaleik Afríkukeppninnar í gær.

Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma og framlengingu í leiknum í gær og því réðust úrslitin í vítakeppni. Fyrirfram þóttu Egyptar sigurstranglegri þar enda höfðu þeir unnið Fílbeinsstrendinga og heimalið Kamerúna í vítakeppni í útsláttarkeppninni.

Í gær var lukkan hins vegar ekki lengur í liði með Egyptalandi. Mohamed Abdelmonem og Mohanad Lasheen klikkuðu á sínum spyrnum og Sadio Mané tryggði Senegal sigurinn og sinn fyrsta Afríkumeistaratitil með því að skora úr síðustu spyrnu liðsins. Því fékk samherji hans hjá Liverpool, Salah, ekki tækifæri til að taka fimmta víti Egyptalands.

Carragher skilur ekki af hverju Egyptar tóku þessa áhættu, að láta Salah taka síðustu spyrnuna.

„Þetta er ástæðan fyrir því að besta vítaskyttan ætti aldrei að taka víti númer fimm. Að Mo Salah taki ekki víti fyrir Egyptaland í vítakeppni í úrslitaleik er brjálæði. Gerðist líka fyrir Ronaldo fyrir Portúgal gegn Spáni fyrir nokkrum árum,“ skrifaði Carragher á Twitter.

Hann vísaði þar til vítakeppninnar í leik Portúgals og Spánar í undanúrslitum EM 2012 þar sem Ronaldo átti að taka síðasta víti Portúgala en komst aldrei á punktinn.

Ekki er langt þar til Senegal og Egyptaland mætast aftur. Þau eigast nefnilega við í umspili um sæti á HM í næsta mánuði.

Salah skoraði tvö mörk í Afríkukeppninni og hefur alls skorað 46 mörk í 81 landsleik fyrir Egyptaland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×