Fótbolti

Nýju mennirnir tryggðu Juventus sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nýju mennirnir voru ekki lengi að setja mark sitt á Juventus.
Nýju mennirnir voru ekki lengi að setja mark sitt á Juventus. Filippo Alfero/Getty Images

Juventus vann 2-0 sigur á Hellas Verona í síðasta leik dagsins í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Nýju menn liðsins voru báðir á skotskónum.

Það tók framherjann Dušan Vlahović aðeins þrettán mínútur að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið. Eftir að fá sendingu frá Paulo Dybala þá lyfti Vlahović snyrtilega yfir markvörð Verona og kom Juventus yfir.

Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks og staðan 1-0 Juventus í vil er liðin gengu til búningsherbergja.

Eftir rúman klukkutíma leik átti Álvaro Morata frábæra stungu sendingu inn fyrir vörn Verona á Denis Zakaria sem gat ekki annað en skorað. Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur.

Sigurinn lyftir Juventus upp í 4. sæti deildarinnar með 45 stig, átta stigum minna en topplið Inter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×