Albert sat á bekknum er tíu leikmenn Genoa sóttu stig gegn Roma

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Genoa sótti gott stig í ítölsku úrvalsdeildinni í dag.
Genoa sótti gott stig í ítölsku úrvalsdeildinni í dag. Francesco Pecoraro/Getty Images

Albert Guðmundsson var ónotaður varamaður í sínum fyrsta leik með Genoa er liðið Gerði markalaust jafntefli gegn Roma í ítölsku úrvalsdeildinni í dag.

Albert og félagar eru í harðri fallbaráttu í ítölsku deildinni og því var stigið líklega vel þegið gegn José Mourinho og lærisveinum hans í Roma.

Þeir gerðu sér þó erfitt fyrir þegar varamaðurinn Leo Østigård nældi sér í beint rautt spjald fyrir brot á Felix Afena-Gyan. Sá síðarnefndi var þá við það að sleppa í gegn en Østigård ákvað að besta leiðin til að stöðva hann væri að taka hann hálstaki. Dómari leiksins var þó ekki sammála því að þetta væri góð leið til að stöðva menn og sendi Norðmanninn rakleiðis í sturtu.

Heimamenn í Roma héldu að þeir hefðu tryggt sér sigurinn þegar Nicolo Zaniolo kom boltanum í netið í uppbótartíma, en eftir skoðun myndbandsdómara kom í ljós að Tammy Abraham hafi brotið af sér í aðdraganda marksins og það fékk því ekki að standa.

Nokkrum mínútum eftir að markið var dæmt af var Zaniolo enn virkilega ósáttur við dóminn og nældi sér í beint rautt spjald fyrir kjaft.

Genoa situr í næst neðsta sæti deildarinnar með 14 stig eftir 24 leiki, fjórum stigum frá öruggu sæti. Roma situr hins vegar í sjötta sæti með 39 stig.

Serie A er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 kr. á mánuði. Upplýsingar um beinar útsendingar frá ítalska boltanum má finna hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira