Erlent

Á­ætla að þriðji hver Dani hafi smitast síðan í nóvember

Atli Ísleifsson skrifar
Rannsóknin bendir til að hlutfall þeirra sem hafi raunverulega smitast af kórónuveirunni sé mun hærra í Kaupmannahafnarsvæðinu en annars staðar í landinu.
Rannsóknin bendir til að hlutfall þeirra sem hafi raunverulega smitast af kórónuveirunni sé mun hærra í Kaupmannahafnarsvæðinu en annars staðar í landinu. AP

Um þriðjungur fullorðinna í Danmörku hefur líklegast smitast af kórónuveirunni síðan í nóvember. Frá þessu greinir Sóttvarnastofnun Danmerkur SSI í dag þar sem birtar eru frumniðurstöður rannsóknar þar sem reynt er að kortleggja raunverulegan smitfjölda í landinu.

Fyrirvarar eru settir við niðurstöðurnar en stofnunin telur að stór hluti fólks hafi smitast af kórónuveirunni sem veldur Covid-19 án þess að það hafi uppgötvast, til dæmis vegna einkennaleysis, eða þá án þess að fara í sýnatöku.

Stofnunin vann að rannsókninni með einstökum heilbrigðisumdæmum í Danmörku og rannsakaði þar blóð úr blóðgjöfum þar sem leitað var eftir mótefni. Tekin voru blóðsýni úr samtals 4.722 blóðgjöfum, sem gáfu blóð á tímabilinu 18. til 23. janúar og var þar leitað að mótefni gegn veirunni sem líkaminn myndar eftir smit, ekki mótefni sem myndast eftir bólusetningu.

Stofnunin áætlar, að teknu tilliti til niðurstaðna rannsóknarinnar auk jákvæðra PCR-sýna, þá hafi 32 prósent fullorðinna á aldrinum 18 til 72 ára í Danmörku verið með kórónuveiruna á tímabilinu 1. nóvember á síðasta ári og til 28. janúar síðastliðinn.

Stór hluti ekki greinst í PCR-prófi

Ennfremur segir að mikill munur sé á landshlutum og þannig sé hlutfallið mun hærra á Kaupmannahafnarsvæðinu, þar sem áætlað er að 42 prósent fullorðinna hafi verið með veiruna á umræddu tímabili.

Þannig hafi milli þriðjungur og helmingur þeirra sem smitast hafa, ekki fengið jákvæða niðurstöðu í PCR-prófi, heldur verið smituð án þess að hafa endilega gert sér grein fyrir því.

Sérstaklega er tekið fram að talsverð óvissa ríki um niðurstöðu rannsóknarinnar þar sem einungis hafi verið stuðst við blóðgjafir á einnar viku tímabili og að útreikningar byggi að nokkrum hluta á ákveðnum ályktunum.

Afléttu öllu

Ómíkrónafbrigði kórónuveirunnar kom fyrst til Danmerkur í byrjun nóvember og varð fljótt nær allsráðandi í landinu.

Danir afléttu öllum takmörkunum vegna faraldursins um mánaðamótin, eftir að ákveðið var að skilgreina Covid-19 á þann veg að hann ógni ekki lengur dönsku samfélagi. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×