Enski boltinn

John Bar­nes fann til mikillar sektar­kenndar eftir Hillsbor­ough harmleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Barnes með son sinn á minningarstund eftir Hillsborough harmleikinn.
John Barnes með son sinn á minningarstund eftir Hillsborough harmleikinn. Getty/PA

Liverpool goðsögnin John Barnes hefur rætt um hvað hann gekk í gegnum sjálfur eftir að hafa verið spila undanúrslitaleikinn á móti Nottingham Forest á Hillsborough vellinum árið 1989 þegar 97 stuðningsmenn Liverpool dóu í hræðilegu slysi.

Barnes og liðsfélagar hans horfðu upp á skelfinguna inn á Hillsborough leikvanginum þegar 97 stuðningsmenn krömdust til bana þegar lögregla hleypti of mörgum inn á sama svæðið á vellinum. Fólkið komst ekki í burtu vegna grindverks í kringum áhorfendastæðið.

Barnes segist hafa fundið til mikillar sektarkenndar af því að þarna hafði fólk látist sem mætti til að horfa á hann spila fótbolta. Barnes ræddi slysið í nýju viðtali við ITV í þáttarröðinni Life Stories.

„Á þessum tíma voru alltaf leikir þar sem áhorfendur virtust vera í kremjingi af því að þú varst með þessi grindverk í kringum völlinn,“ sagði John Barnes.

„Ég hélt því fyrst að það væri eitthvað slíkt í gangi því við vorum vanir því að áhorfendur voru meðhöndlaðir eins og búfénaður. Svo fór fólk að koma inn á völlinn, sagði hinn 58 ára gamli Barnes sem segir enn eftir að tala um þetta svo mörgum árum seinna,“ sagði Barnes.

Leikmenn liðanna héldu sér heitum inn í klefa í fimmtán mínútur þar sem þeim var sagt að leikurinn hæfist á ný. Fljótlega kom þó í ljós að svo yrði ekki. Leikmennirnir fóru því í sturtu og klæddu sig.

„Við fórum síðan inn í leikmannasetustofuna og þar gátum við séð völlinn. Þá áttaði ég mig á því hversu alvarlegt þetta var. Við sáum lík, fólk á börum. Við sáum lítið börn og þá fór maður að hugsa um börnin sín,“ sagði Barnes.

„Í framhaldinu fékk maður þessa órökréttu sektarkennd yfir því að fólk sem mætti þangað til að horfa á þig spila fótbolta mun aldrei skila sér heim,“ sagði Barnes. Hann segir að enginn hafi sagt neitt í liðsrútunni á leiðinni heim til Liverpool en að menn hefðu grátið.

John sagði líka frá því að þegar hann kom heim til síns hafði hann farið upp í rúm til sonar síns og faðmað hann. „Ég þakkaði guði fyrir að hann var þarna,“ sagði Barnes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×