Erlent

Á­kærðir fyrir að selja Wire-leikara ban­væna blöndu fíkni­efna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Michael K. Williams var helst þekktur fyrir leik sinn í The Wire.
Michael K. Williams var helst þekktur fyrir leik sinn í The Wire. David Livingston/Getty Images

Lögreglan í New York hefur handtekið fjóra einstaklinga í tengslum við andlát leikarans Michael K. Williams. Mennirnir eru grunaðir um að hafa selt Williams banvæna blöndu fentanýls og heróíns.

Frændi Williams kom að honum meðvitundarlausum á heimili leikarans í New York 6. september. Williams var úrskurðaður látinn skömmu síðar. Hann var 54 ára gamall.

Niðurstaða réttarmeinafræðingsins var að dauði Williams hefði verið slys. Hann hefði tekið inn of stóran skammt af blöndu kókaíns, heróíns og ópíóíðalyfinu fentanýl.

Í frétt New York Times um málið segir að búið sé að ákæra menninna vegna málsins. Þeir hafi meðal annars haldið áfram að selja hina banvænu blöndu eftir að Williams lést, vitandi það að hann hafi látist eftir að keypt efnin af þeim.

Williams hlaut mikið lof fyrir túlkun sína á persónu Omars Little, samkynhneigðs glæpamanns sem sérhæfði sig í að ræna fíkniefnasala, í „The Wire“ sem fjölluðu um samfélagið í Baltimore-borg út frá mörgum hliðum. Þættirnir voru meðal annars í uppáhaldi hjá Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta, og var Omar uppáhaldspersóna hans í þáttunum.

Leikarinn hafði átt í fíknivanda í gegnum tíðina. Í viðtali árið 2012 sagðist hann hafa verið í neyslu þegar hann lék í „The Wire“ en að hann neytti ekki sterkari efna en kókaíns og maríjúana.

„Ég lék mér að eldinum. Það var bara tímaspursmál hvenær ég yrði gripinn og mál mín enduðu á forsíðu slúðurblaðs eða ég lenti í fangelsi, eða enn verra, að það yrði mér að bana,“ sagði Williams þá.


Tengdar fréttir

Andhetjan úr „The Wire“ látin

Michael K. Williams, bandaríski leikarinn hvers stjarna reis hæst í þáttunum „The Wire“, fannst látinn í íbúð sinni í New York í dag. Hann var 54 ára gamall.

Wire-stjarnan lést úr ofskammti af eiturlyfjum

Réttarmeinafræðingur í New York hefur úrskurðað að Michael K. Williams, leikarinn sem var helst þekktur fyrir hlutverk sitt í þáttaröðinni The Wire, hafi látist af því að hafa tekið óvart of stóran skammt af blöndu eiturlyfja og lyfja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×