Innherji

Eigandi Nespresso á Íslandi keypti vænan hlut í Controlant

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Adira ehf á 90 prósent í félaginu sem heldur utan um rekstur Nespresso á Íslandi. 
Adira ehf á 90 prósent í félaginu sem heldur utan um rekstur Nespresso á Íslandi.  Vísir/Getty

Fjárfestingafélagið Adira ehf, sem er aðaleigandi Nespresso á Íslandi og stærsti hluthafi hugbúnaðarfyrirtækisins Wise, er einn af 60 nýjum hluthöfum tæknifyrirtækisins Controlant. Þetta kemur fram á hluthafalista Controlant sem Innherji hefur undir höndum.

Adira, sem er í helmingseigu Jónasar Hagan Guðmundssonar, fer með 40 þúsund hluti í Controlant eftir kaupin. Nýlega hafa átt sér stað stór viðskipti með bréf í Controlant á genginu 15 þúsund krónur á hlut og má því ætla að eignarhlutur Adira sé metinn á 600 milljónir.

Eins og fram kom í frétt Innherja fyrr í dag er stærsti nýi hluthafinn NG Invest Ltd sem er skráð á danskan stjórnanda hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey. Eignarhaldsfélagið er tíundi stærsti hluthafinn með hlut að virði 2,3 milljarða króna.

Þá bættist Arion banki við hluthafahópinn á síðasta ári en bankinn tók þátt í skuldabréfaútboði Controlant í mars 2020 og nýtti síðan heimild til skuldbreytingar á genginu 1.250. Núverandi gengi er tólf sinnum hærra og nemur eignarhlutur bankans samkvæmt því um 2 milljörðum króna.

Enn annar nýr hluthafi er Mótás, félag í eigu Bergþórs Jónssonar og Fritz Hendriks Berndsen, sem hafa starfað saman sem byggingarverktakar um árabil. Eignarhlutur Mótáss, sem varð einn af stærstu hluthöfum fjárfestingafélagsins Stoða í byrjun síðasta árs, nemur 37,5 þúsundum að nafnvirði, en markaðsvirði hans í dag er um 560 milljónir króna.

Tvö félög á forræði Magnúsar Magnússonar, sem var í forsvari fyrir Eignarhaldsfélagið Borgun þegar það keypti hlut Landsbankans í færsluhirðinum Borgun, bættust við hluthafalista Controlant á síðasta ári. Annað þeirra, BBL 160, fer með hlut að virði 510 milljóna króna en hitt, Kaldaklif, fer með hlut að virði 270 milljóna. Magnús á einnig þriðjungshlut í Sio ehf., sem er áttundi stærsti hluthafi Controlant með 2,9 prósenta hlut. Markaðsvirði hans nemur 2,6 milljörðum króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×