Erlent

Ákvæði um verðtryggingu í samningi Bandaríkjanna um Paxlovid

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Paxlovid fær markaðsleyfi á Íslandi í febrúar.
Paxlovid fær markaðsleyfi á Íslandi í febrúar. epa/Yonhap

Bandarísk stjórnvöld munu greiða 530 dollara, um 68 þúsund krónur, fyrir hverja meðferð af Paxlovid, lyfjameðferð Pfizer gegn Covid-19. Verðið mun hins vegar lækka ef annað stórveldi nær hagstæðari samningum við lyfjarisann.

Stjórnvöld vestanhafs hafa samið um kaup á 10 milljón skömmtum en Robin Feldman, prófessor við University of California Hastings College of the Law, segir að svo virðist sem umræddur samningur sé mun hagstæðari en sá sem gerður var við Pfizer um kaup á bóluefni fyrirtækisins.

„Ég held að samningurinn endurspegli þá viðhorfsbreytingu sem hefur orðið í samfélaginu á þessum tíma,“ sagði hún í samtali við Huffington Post. Þannig hefðu bóluefnin gegn Covid-19 og þær ýmsu meðferðir sem nú væru í boði gegn sjúkdómnum dregið úr hræðslu fólks, sem gerði það að verkum að embættismenn væru í betri aðstöðu við samningaborðið.

Í samningum er að finna ákvæði um verðtryggingu, sem almenningur á að kannast við. Líkt og sumar verslanir bjóða upp á að endurgreiða neytandanum mismunin ef hann finnur sömu vöru á lægra verði annars staðar, tryggir Pfizer Bandaríkjunum lægsta verð ef annað stórveldi nær samningum við fyrirtækið um lægra verð.

Markaðsleyfi á Íslandi væntanlegt í febrúar

Umrædd stórveldi eru sex; Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Japan og Bretland. Listinn er sumsé tæmandi og þannig myndu Bandaríkjamenn ekki hagnast á því ef til dæmis Noregur næði hagstæðari samningum við Pfizer.

Í samningum er einnig kveðið á um að ef neyðarheimild Pfizer fyrir notkun Paxlovid gegn Covid-19 verður af einhverjum orsökum felld úr gildi, þá sé fyrirtækið skuldbundið til að kaupa aftur þá skammta sem ekki hafa runnið út.

Miklar vonir eru bundnar við Paxlovid í baráttunni gegn Covid-19. 

Lyfið hefur reynst afar vel í lyfjaprófunum og dregur verulega úr líkunum á því að einstaklingar veikist alvarlega af sjúkdómnum. Þá hefur lyfið þann kost að vera í töfluformi, sem gerir það að verkum að fólk getur tekið það heima hjá sér. Flest önnur lyf sem hafa verið notuð gegn Covid-19 hefur þurft að gefa í æð.

Samkvæmt upplýsingum á vef Lyfjastofnunar er markaðsleyfi fyrir notkun Paxlovid á Íslandi væntanlegt í febrúar. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins veitti skilyrt markaðsleyfi fyrir notkun lyfsins í aðildarríkjum sambandsins 28. janúar síðastliðinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×