Innlent

Stálu stórum dráttar­bíl Strætó

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Bíllinn sem um ræðir.
Bíllinn sem um ræðir. Strætó

Dráttarbíl Strætó af gerð Scania 440 var stolið af athafnasvæði Strætó á Hesthálsi í dag. Upplýsingafulltrúi segir að lögreglu hafi verið gert viðvart og verið sé að skoða myndefni úr myndavélum á svæðinni.

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir að lögregla hafi málið til rannsóknar og að verið sé að leita að bílnum. Þjófarnir meintu eiga að hafa komist inn á svæðið en til þeirra sást meðal annars á myndavélum.

Dráttarbíllinn er í einkennislitum Strætó - gulur, og er þar að auki merktur fyrirtækinu. Á dráttarbílinn vantar „gáminn“ sem vanalega er á vörubílum af þessari stærð og segir upplýsingafulltrúinn að bíllinn ætti ekki að fara fram hjá neinum. Vörubíllinn sé mjög áberandi og þeir sem upplýsingar kunna að hafa um málið eru beðnir um að hafa samband við lögreglu.

Guðmundur segir daginn hafa verið nokkuð annasaman en eins og Vísir greindi frá fyrr í dag var ráðist inn í netkerfi fyrirtækisins yfir hátíðarnar: „Klappið, greiðslukerfið, var ekki í þessu innbroti því það er hýst annars staðar og mér skilst að vefverslun hjá Strætó og heimasíðan ætti líka að vera örugg. En við sjáum bara hvað kemur út úr því á næstu dögum,“ segir Guðmundur Heiðar upplýsingafulltrúi Strætó bs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×