Handbolti

Viðbjóðsleg herbergi íslensku stelpnanna í Belgrad: „Mýs hlaupandi hérna út um allt hótel“

Sindri Sverrisson skrifar
Íslensku stelpurnar fögnuðu frábærum sigri í gær, þrátt fyrir músaganginn sem verið hefur á hóteli liðsins í Belgrad.
Íslensku stelpurnar fögnuðu frábærum sigri í gær, þrátt fyrir músaganginn sem verið hefur á hóteli liðsins í Belgrad. Skjáskot/Twitter og HSÍ

Íslensku stelpurnar í U17-landsliðinu í handbolta hafa þurft að búa við óboðlegar aðstæður á hóteli sínu í Serbíu þar sem þær eru staddar til að spila um sæti á EM 2023.

„Það er ekkert leyndarmál að það eru mýs hlaupandi hérna út um allt hótel. Það er ekkert bara á einu herbergi, heldur bara á öllu hótelinu. Þetta er auðvitað óboðlegt,“ segir Ágúst Jóhannsson, þjálfari íslenska liðsins, í samtali við RÚV.

Haukagoðsögnin Harpa Melsteð á dóttur í liðinu, Thelmu Melsteð Björgvinsdóttur, og birti hún myndskeið á Twitter af hótelinu í Belgrad þar sem sjá má mús læðast um á einu hótelherbergjanna.

„Við erum auðvitað búin að kvarta og það er verið að vinna í málinu. En þetta er bara algjör viðbjóður,“ sagði Ágúst við RÚV.

Ágúst segir að músagangurinn hafi auðvitað áhrif á ástand leikmanna og geri þeim erfiðara fyrir með að hvílast.

Það kom þó ekki að sök í gær þegar Ísland vann fyrsta leik sinn á mótinu, þar sem fjögur lið berjast um eitt sæti á EM 2023.

Ísland vann Slóveníu 24-21 á meðan að heimakonur í Serbíu unnu Slóvakíu 30-20. Lilja Ágústsdóttir fór fyrir íslenska liðinu og skoraði átta mörk en staðan var jöfn í hálfleik, 9-9.

Í dag mætir Ísland liði Slóvakíu en Serbía og Slóvenía mætast. Á fimmtudaginn ræðst svo hvaða lið mun eiga fulltrúa á EM U17 og EM U19 árið 2023, þegar lokaleikirnir fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×