England kvað þýsku grýluna í kútinn og er komið áfram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sterling fagnar fyrra markinu.
Sterling fagnar fyrra markinu. Eddie Keogh/Getty

England er komið í átta liða úrslit Evrópumótsins 2020 eftir að hafa slegið út Þýskaland 2-0 í 16-liða úrslitunum á Wembley í dag. Raheem Sterling og Harry Kane sáu um markaskorið í síðari hálfleiknum.

Englendingar höfðu einungis skorað tvö mörk fyrir leikinn í dag en þeir höfðu þó ekki fengið mark á sig. Þeir breyttu um leikskipulag og spiluðu 3-4-3 til að spegla þá þýsku.

Þeir ensku voru meira boltann í fyrri hálfleik og það var kraftur í enska liðinu þó að báðum liðum hafi gengið illa að skapa sér opin marktækifæri. Raheem Sterling átti fyrsta skotið utan af velli en Manuel Neuer sá við honum.

Harry Maguire fékk svo fínt skallafæri eftir hornspyrnu en skallinn var slakur. Besta færi Þýskalands í fyrri hálfleik fékk Timo Werner er hann komst einn gegn Jordan Pickford utarlega í teignum en Pickford sá við honum.

Besta færi fyrri hálfleiks fékk Harry Kane. Boltinn féll til hans í uppbótartíma fyrri hálfleiks og í stað þess að sparka á markið reyndi Kane að taka boltann með sér en vanarmenn Þýskalands komu til bjargar. Markalaust í hálfleik.

Kai Havertz byrjaði síðari hálfleikinn á þrumuskoti sem Jordan Pickford blakaði yfir markið og það var meiri áræðni og kraftur yfir þeim þýsku í síðari hálfleik.

Fyrsta mark leiksins kom stundarfjórðungi fyrir leikslok. Eftir ansi góða enska sókn átti Luke Shaw frábæra fyrirgjöf fyrir markið þar sem Raheem Sterling kom askvaðandi og lagði boltann í netið. Þriðja mark Sterling á EM.

Þeir þýsku þurftu þar af leiðandi að færa sig framar og þeir fengu rosalegt færi á 81. mínútu. Markaskorarinn Sterling missti boltann á miðjum vellinum sem endaði með því að Thomas Muller slapp einn gegn Jordan Pickford en skot hans framhjá. Dauðafæri!

Eftir það pössuðu þeir ensku sig betur og hleyptu Þjóðverjum ekki í hættuleg færi. Þeir gerðu svo út um leikinn á 86. mínútu en eftir hraða sókn gaf Jack Grealish góða fyrirgjöf fyrir markið og Harry Kane skilaði boltanum í netið. Fyrsta EM markið hans. Lokatölur 2-0.

Þeir ensku eru komnir í átta liða úrslitin þar sem þeir mæta Svíþjóð eða Úkraínu á sunnudaginn í Róm.


Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira