Fótbolti

Krókódíll stöðvaði fótboltaæfingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Toronto FC fylgjast með krókódílnum en skiljanlega úr góðri fjarlægð.
Leikmenn Toronto FC fylgjast með krókódílnum en skiljanlega úr góðri fjarlægð. Instagram/@torontofc

Það bauð honum enginn og leikmenn Toronto FC þurftu að forða sér á miðri æfingu liðsins.

Það væri svo sem ekkert slæmt að hafa hann í vörninni en Toronto FC fengi seint leyfi fyrir því að stilla upp krókódílnum sem mætti á æfingu liðsins á dögunum.

Toronto FC varð að stoppa æfingu liðsins þegar veglegur krókódíll birtist skyndilega á æfingavellinum. Leikmenn liðsins voru fljótir að forða sér og síðan var reynt að koma óboðna gestinum í burtu.

Toronto FC er frá Kanada en vegna sóttvarnarreglna í Kanada þá hefur þetta kanadíska félag þurft að spila og æfa í Bandaríkjunum til að geta tekið þátt í MLS-deildinni. Liðið spilar heimaleiki sína á Exploria leikvanginum í Orlando á Flórída.

Leikmenn Toronto FC voru því staddir á Flórída þar sem liðið var að undirbúa sig fyrir leik í átta liða úrslitum Meistaradeild Concacaf. Leikmenn liðsins voru kannski eitthvað skelkaðir ennþá í leiknum því hann tapaðist 3-1.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af því þegar krókódíllinn mætti á þessa lokuðu æfingu Toronto FC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×