Fótbolti

Ströng sótt­varnar­skil­yrði þýða að Noregur spilar mikil­vægan leik á Spáni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erling Haaland tókst ótrúlegt en satt ekki að skora gegn Gíbraltar. Hann ætlar eflaust að bæta upp fyrir það á morgun.
Erling Haaland tókst ótrúlegt en satt ekki að skora gegn Gíbraltar. Hann ætlar eflaust að bæta upp fyrir það á morgun. Ian Martinez/Getty Images

Á morgun mætast Noregur og Tyrkland í undankeppni HM 2022 í knattspyrnu. Leikurinn gæti skipt sköpum þegar undankeppninni lýkur en því miður fyrir Norðmenn verður leikurinn ekki spilaður í Noregi.

Líkt og kom fram fyrr í dag eru ströng sóttvarnarskilyrði í Noregi þessa dagana. Til að mynda fékk landsliðsmiðvörðurinn Ingibjörg Sigurðardóttir ekki leyfi til koma til móts við íslenska kvennalandsliðið en hún leikur með Noregsmeisturum Lilleström.

Norðmenn hófu undankeppnina á 3-0 sigri á Gíbraltar á útivelli. Á sama tíma unnu Tyrkir magnaðan 4-2 sigur á Hollendingum sem eru þriðja þjóðin sem munu gera tilkall til efstu tveggja sæta G-riðils.

Það er því ákveðið högg fyrir Norðmenn að leikur morgundagsins fari ekki fram á Ullevaal-vellinum í Osló heldur á La Rosaleda-vellinum í Málaga á Spáni. 

Til að bæta gráu ofan á svart verður fyrirliði liðsins – Martin Ødegaard – að öllum líkindum ekki með vegna meiðsla sem hann varð fyrir gegn Gíbraltar.

Leikur Noregs og Tyrklands verður í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport klukkan 17.00 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×