Erlent

Fyrst­i ráð­herr­a Band­a­ríkj­ann­a af frum­byggj­a­ætt­um

Samúel Karl Ólason skrifar
Deb Haaland, nýr innanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Deb Haaland, nýr innanríkisráðherra Bandaríkjanna. AP/Jim Watson

Bandarískir öldungadeildarþingmenn staðfestu í gærkvöldi tilnefningu þingkonunnar Deb Haaland í embætti innanríkisráðherra. Þar með varð hún fyrsti fumbygginn sem verður ráðherra í sögu Bandaríkjanna.

Hún er þá einnig auðvitað fyrsti frumbygginn til að stýra ráðuneytinu, sem heldur meðal annars utan um 574 landskika í eigu frumbyggja.

Ráðuneytið var þar að auki á árum áður í forsvari þess að reka frumbyggja Bandaríkjanna á þar til gerð verndarsvæði svo hægt væri að nema land þeirra, samkvæmt frétt Politico.

Haaland tilheyrir Laguna Pueblo þjóðinni frá Nýju Mexíkó.

Atkvæðagreiðslan fór 51-40 en fjórir þingmen Repúblikanaflokksins gengu til liðs við Demókrata og veittu Haaland atkvæði sitt. Heilt yfir voru Repúblikanar þó mjög andvígir tilnefningu hennar, vegna andstöðu hennar við að gefa leyfi fyrir olíu og gasvinnslu á landi í alríkiseigu.

Þeir hafa lýst henni sem rótækri, vegna ákalla hennar eftir því að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis og gripið til aðgerða til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Þá segja þeir innanríkisráðherra eiga að ýta undir olíu- og gasvinnslu og vegna andstöðu hennar ætti hún ekki að leiða ráðuneytið, samkvæmt frétt Washington Post.

Haaland dró þó úr afstöðu sinni og sagði að sem innanríkisráðherra yrði afstaða hennar gagnvart vinnslu jarðefnaeldsneyta önnur en afstaða hennar sem þingmaður. Í embætti ráðherra væri það starf hennar að framfylgja stefnumálum Joes Biden, forseta.

Hann hefur sagst vilja leyfa einhverja vinnslu olíu og gass á landi í alríkiseigu en í senn draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Haaland sagði einnig að hún myndi leggja áherslu á að bæta land sem hefði orðið fyrir skaða vegna námuvinnslu og annars iðnaðar.

Þá vill hún beita sér til að draga úr morðum á bandarískum konum af frumbyggjaættum. Hlutfall þeirra kvenna sem eru myrtar eða týnast er um tíu sinnum hærra en heilt yfir Bandaríkin og þær eru sömuleiðis mun líklegri til að verða fórnarlömb mansals og kynlífsþrælkunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×