Fótbolti

Neymar ekki með gegn Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar meiddist í bikarleik Paris Saint-Germain og Caen 10. febrúar.
Neymar meiddist í bikarleik Paris Saint-Germain og Caen 10. febrúar. epa/CHRISTOPHE PETIT TESSON

Ljóst er að Brasilíumaðurinn Neymar verður ekki með Paris Saint-Germain gegn hans gömlu félögum í Barcelona í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld.

Neymar er meiddur á læri og missti af fyrri leik PSG og Barcelona sem frönsku meistararnir unnu, 1-4, á Nývangi. Hann er ekki búinn að fá bót meina sinna og verður því fjarri góðu gamni á morgun.

PSG verður einnig án Moises Kean sem er í einangrun vegna kórónuveirunnar. Hann skoraði eitt marka PSG í fyrri leiknum gegn Barcelona. Kylian Mbappé skoraði hin þrjú mörk Frakkanna.

Þótt PSG sé í góðri stöðu er seinni leikur liðsins gegn Barcelona í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar 2017 stuðningsmönnum þess eflaust ferskur í minni. PSG vann fyrri leikinn á Parc des Princes, 4-0, en tapaði seinni leiknum á Nývangi, 6-1, og féll því úr leik, 6-5 samanlagt.

Neymar kom mikið við sögu í seinni leiknum. Hann skoraði tvö mörk fyrir Barcelona, lagði upp eitt og fiskaði vítaspyrnu.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×