Viðskipti innlent

LLCP kaupir meiri­hluta í Creditin­fo Group

Atli Ísleifsson skrifar
Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi.
Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi. Creditinfo

Framtakssjóðurinn Levine Leichtman Capital Partners (LLCP) hefur keypt meirihluta hlutafjár Creditinfo Group, móðurfélags Creditinfo á Íslandi.

Frá þessu segir í tilkynningu, en Creditinfo var stofnað á Íslandi 1997 og starfa rúmlega fjögur hundruð manns hjá fyrirtækinu á yfir þrjátíu starfsstöðvum víða um heim.

Í tilkynningunni segir að aðkoma LLCP sé áfangi í vexti Creditinfo, sem leiðandi fyrirtækis á heimsvísu við miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga til ákvarðanatöku. Ekkert segir um kaupverð.

„Stöðug og vaxandi eftirspurn er eftir lausnum og greiningartólum Creditinfo. Með nýrri skipan í hluthafahópi Creditinfo fæst aukinn drifkraftur og ný stefna í vaxtaráætlanir fyrirtækisins um leið og samfellu er viðhaldið í rekstrinum, en Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo, heldur sæti í stjórn og er jafnframt annar stærsti hluthafi félagsins. Paul Randall, sem gekk til liðs við Creditinfo árið 2007, leiðir fyrirtækið í næsta vaxtarfasa sem nýráðinn forstjóri samstæðunnar og kemur til með að vinna náið með Reyni og LLCP. Stjórnendahópur og stefna Creditinfo á Íslandi er óbreytt,“ segir í tilkynningunni.

Paul Randall, forstjóra Creditinfo Group.Creditinfo

Levine Leichtman Capital Partners

Um Levine Leichtman Capital Partners, LLC, segir að það sé framtakssjóður sem einbeiti sér að fyrirtækjum af miðmarkaðsstærð. 

„Saga sjóðsins í markvissum fjárfestingum í ólíkum geirum, þar með talið á sviðið sérleyfa, fagþjónustu, menntunar og vöruframleiðslu, teygir sig 37 ár aftur í tímann. Fjárfestingarstefna LLCP byggir á fjölbreyttum fjárfestingum í hlutafélögum, sem sameinar skuldafjárfestingar og fjárfestingar í hlutafé í eignasafnsfyrirtækjum. Þessi einstaka samsetning býður stjórnendum og frumkvöðlum markvissari lausn sem um leið skilar vexti og tekjum með verulega skertri áhættu.

Fyrir teymi sérfræðinga LLCP á sviði fjárfestinga á heimsvísu fara sjö meðeigendur sem að meðaltali hafa starfað hjá LLCP í 21 ár. Frá stofnun hefur LLCP haft umsjón með um það bil 11,7 milljörðum Bandaríkjadala af stofnanafjármagni í 14 fjárfestingarsjóðum og hefur fjárfest í yfir 90 eignasafnsfyrirtækjum. Eignir í stýringu hjá LLCP nema nú um 7,8 milljörðum dala, þar með talið í nýjasta flaggskipssjóði LLCP, Levine Leichtman Capital Partners VI, LP, sem hafði, í árslok 2018, fjárfest fyrir 2,5 milljarða dala og nýjasti sjóðurinn í Evrópu, Levine Leichtman Capital Partners Europe II SCSp, sem hafði fjárfest fyrir 463 milljónir evra í árslok 2020. Skrifstofur eru í Los Angeles, New York, Chicago, Charlotte, Miami , London, Stokkhólmi og Haag.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×