Fótbolti

Mótmæla því að Messi hafi bætt met Pele

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi er sá sem hefur skorað flest mörk fyrir eitt félag en Santos heldur því fram að Pele eigi enn metið.
Lionel Messi er sá sem hefur skorað flest mörk fyrir eitt félag en Santos heldur því fram að Pele eigi enn metið. Getty/David S. Bustamante

Lionel Messi er langt frá því að bæta markamet Pele fyrir eitt félag af marka má tölurnar hjá brasilíska félaginu Santos.

Fjölmiðlar heimsins hafa fjallað um nýjasta met Lionel Messi að undanförnu, bæði þegar Argentínumaðurinn jafnaði og bætti met Brasilíumannsins Pele yfir flest mörk fyrir eitt félag.

Samkvæmt opinberum tölum þá skoraði Pele 643 mörk fyrir brasilíska félagið Santos en Messi hefur jafnað og bætt það met í tveimur síðustu leikjum Barcelona.

Forráðamenn Santos hafa nú stigið fram og mótmælt því að Messi sé búinn að bæta met Pele. Félagið setti inn yfirlýsingu á samfélagsmiðla sína.

Samkvæmt þeirra tölum þá þarf Messi að skora 447 mörk í viðbót til að bæta met Pele. Þessi mörk hafi Pele skoraði í opinberum leikjum þegar fylgt var öllum reglum íþróttarinnar.

Pele skoraði 1091 mark á átján árum sínum hjá Santos ef marka tölur brasilíska félagsins.

Mörkin sem vantar hjá Pele eru mörk úr vináttuleikjum og vináttumótum. Mörk á móti liðum eins og River Plate, Boca Juniors, Real Madrid, Juventus, Lazio, Napoli, Benfica og Anderlecht eru því ekki talin með.

Pele skoraði mörkin sín fyrir Santos á árunum 1956 til 1974 en Messi er að spila sitt sautjánda tímabil með Barcelona liðinu og lék sinn fyrsta leik árið 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×