Handbolti

„Þú kemur alltaf heim sem kóngur í mínum augum en núna kemur þú heim sem kóngur með stóru K-i“

Anton Ingi Leifsson skrifar
María er stolt af pabba sem kemur heim til Noregs með gull.
María er stolt af pabba sem kemur heim til Noregs með gull. getty/andre weening/harriet lander

María Þórisdóttir, leikmaður Chelsea á Englandi og norska landsliðsins í fótbolta, var eðlilega í skýjunum eftir sigur norska kvennalandsliðsins á EM í handbolta í gær.

Pabbi Maríu, Þórir Hergeirsson, er þjálfari norska landsliðsins og var þetta sjöunda gullið sem Þórir vinnur sem aðalþjálfari norska liðsins.

Í úrslitaleiknum í gær voru það Frakkar sem biðu lægri hlut gegn norska liðinu. Leiknum lauk með 22-20 sigri norska liðsins þrátt fyrir áhlaup Frakka í síðari hálfleik.

„Annað hvort kem ég heim sem kóngur eða stór hálfviti,“ sagði Þórir við Maríu sem byrjar tíst sín á þessum orðum en hún var svo með skilaboð til pabba síns.

„Þú kemur alltaf heim sem kóngur í mínum augum en núna kemur þú heim sem kóngur með stóru K-i. Til hamingju, pabbi.“

María býr í Lundúnum þar sem hún leikur með Chelsea en sóttvarnarreglur þar í landi gerir fólki erfitt með að ferðast frá landinu. Svo María kemst ekki heim að fagna jólunum með fjölskyldu sinni.

„Væri svo til í að fagna jólunum með þér. Velkominn heim!“ bætti María við.

María tísti einnig á föstudaginn þegar norska liðið spilaði gegn Dönum á föstudagskvöldið. Á tímapunkti í síðari hálfleik leiddi danska liðið og Þórir benti sínum leikmönnum á að það eina sem skipti máli væri að vera yfir þegar leiknum væri lokið.

María sagði að þetta væri setning sem pabba hennar hafði prentað inn í hana frá því ungaaldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×