Handbolti

Heimsmeistararnir geta enn spilað um fimmta sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bo Van Wetering átti flottan leik með hollenska landsliðinu í dag.
Bo Van Wetering átti flottan leik með hollenska landsliðinu í dag. EPA-EFE/BO AMSTRUP

Hollensku heimsmeistararnir unnu öruggan sigur í síðasta leiknum sínum í milliriðli á EM í handbolta.

Holland á enn möguleika á því að enda í þriðja sæti milliriðils tvö og þar með að spila um fimmta sætið á Evrópumótinu.

Hollenska liðið vann sannfærandi ellefu marka stórsigur á Rúmeníu, 35-24, í fyrsta leik dagsins í milliriðli tvö.

Rúmenía minnkaði muninn í tvö mörk í byrjun seinni hálfleiks, 17-15, en hollenska liðið vann síðustu 26 mínútur leiksins 18-9.

Holland er með jafnmörg stig og Króatía í öðru sæti en Króatar mæta Þýskalandi seinna í kvöld.

Annað hvort Króatía og Þýskaland komast í undanúrslitin með Noregi en hollenska liðið stendur það illa í innbyrðis leikjum liðanna þriggja að þær eiga ekki möguleika á sæti í undanúrslitunum.

Holland endar í þriðja sæti í riðlinum og spilar um fimmta sætið svo framarlega sem að Þýskaland vinnur ekki Króatíu á eftir. 

Hin 21 árs gamla Bo van Wetering var valin maður leiksins en hún skoraði átta mörk úr tólf skotum. Rúmenar hvíldu nokkra lykilmenn í leiknum og fyrirliðinn Cristina Neagu kom sem dæmi aldrei inn á völlinn.

Spánn og Svartfjallaland gerðu 26-26 jafntefli í hinum milliriðlinum. Spænska liðið er komið upp í fimmta sæti riðilsins en Svíar eiga leik inni á móti Frakklandi seinna í dag.

Spænska liðið náði ekki að vinna leik í milliriðlinum en var aldrei nærri því í dag enda sex mörkum yfir í hálfleik, 17-11. Svartfjallaland skoraði fimm mörk í röð og jafnaði metin í 20-20 þegar seinni hálfleikurinn var um það bil hálfnaður.

Svartfellingar voru síðan með frumkvæðið á lokakafla leiksins en spænska liðið tryggði sér jafntefli með jöfnunarmarki Nereu Pena 75 sekúndum fyrir leikslok.

Spænska landsliðið vann silfur á HM í fyrra en þetta mót hefur verið mikil vonbrigði hjá spænska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×