Handbolti

Guðmundur hefur sérstakar áhyggjur af ferðalaginu aftur til baka til Íslands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson er út í Þýskalandi þar sem hann þjálfar lið MT Melsungen.
Guðmundur Guðmundsson er út í Þýskalandi þar sem hann þjálfar lið MT Melsungen. Getty/Andreas Gora

Íslenska handboltalandsliðið þarf að ferðast um Evrópu rétt fyrir HM í Egyptalandi og það hefur mikla smithættu í för með sér.

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, tilkynnti HM hópinn sinn í dag og talaði þá líka um sérstakan undirbúning íslenska handboltalandsliðsins fyrir heimsmeistaramótið í Egyptalandi í janúar.

Íslenska landsliðið þarf að spila tvo leiki í undankeppni EM rétt fyrir brottför sína til Egyptalands og inn í því eru ferðalög frá Íslandi til Portúgals aftur til Íslands og loks út til Egyptalands.

Öllum þessum ferðalögum fylgir auðvitað mikil smithætta og um leið hætta á að leikmenn missi af heimsmeistaramótinu rétt fyrir mót eða allt íslenska liðið endi í sóttkví.

„Það er með ólíkindum að það sé settir svona erfiðir leikir fyrir HM en þetta eru auðvitað ekki einfaldir leikir við Portúgal,“ sagði Guðmundur Guðmundsson á fjarfundi með blaðamönnum í dag.

„Þetta eru löng ferðalög og það er mjög erfitt að komast frá landinu og til landsins. Við höfum sérstakar áhyggjur af ferðalagi okkar aftur til baka til Íslands frá Portúgal þann 5. janúar,“ sagði Guðmundur.

„Það ferðalag gæti reynst okkur mjög erfitt að komast aftur til Íslands. Möguleiki er á því að við þyrftum að gista og þar með erum við búnir að tapa mjög mikilvægum degi í undirbúningi, bæði fyrir seinni leikinn við Portúgal og samhliða fyrir HM,“ sagði Guðmundur.

„Við höfum miklar áhyggjur af þessu. Það er mjög sérstakt að horfa á þetta plan og sjá að við erum að fara spila þrisvar við Portúgal á níu dögum og í þremur mismunandi löndum. Á miðjum Covid tímum þá er þetta ekki einfalt mál,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur segir að skrifstofa HSÍ vinni í því að skipuleggja þetta sem best og að hann og strákarnir ætli sér að gera það besta úr þeim möguleikum sem eru í boði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×