Enski boltinn

Rifjuðu upp hjólhestaspyrnu Eiðs

Anton Ingi Leifsson skrifar
Eiður hleður í hjólhestaspyrnuna á meðan Kelly fylgist með.
Eiður hleður í hjólhestaspyrnuna á meðan Kelly fylgist með. Adam Davy/EMPICS

Chelsea og Leeds United mætast í forvitnilegum leik í enska boltanum um helgina en árið 2003 skoraði Íslendingur flott mark í viðureign þessara liða.

Chelsea og Leeds mætast í ensku úrvalsdeildinni um helgina og þá var vel við hæfi að rifja upp eitt flottasta mark skorað í viðureignum milli þessara liða.

Í janúarmánuði 2003 skoraði Eiður, núverandi þjálfari FH í Pepsi Max-deildinni, eitt flottasta markið í bláu treyjunni er hann kom Chelsea yfir gegn Leeds.

Twitter-síða Chelsea rifjaði upp markið fyrir leik helgarinnar en markið skoraði Eiður með glæsilegri hjólhestaspyrnu eftir fyrirgjöf frá núverandi stjóra Chelsea, Frank Lampard.

„Smá töfrar frá Eiði,“ skrifaði Chelsea á Twitter-síðu sína og endurbirtu markið.

Þetta var næst síðasta leiktíð Leeds í efstu deildinni en liðið féll tímabilið 2003/2004. Þeir komu svo fyrst aftur upp í ensku úrvalsdeildina fyrir þessa leiktíð.

Liðin mætast á laugardagskvöldið, klukkan 20.00, en Chelsea er í 3. sætinu með nítján stig. Leeds er í því tólfta með fjórtán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×